Kristberg Jónsson, betur þekktur sem Kibbi í Baulu, og Sigrún kona hans, ráku lengi vel áningarstaðinn Baulu í Borgarfirði og en Kibbi ræddi meðal annars þá reynslu sína í viðtali við Sjóarann á dögunum.
Kibbi er bæði yfirlýstur sósíalisti og mikill vélhjólamaður. Sagan segir að hann hafi eitt sinn hafi hann eignast blátt mótorhjól en verið snöggur til að sprauta það rautt þar sem hann gæti ekki látið sjá sig á hjóli í litum Sjálfstæðisflokksins. Hann blés á þær sögur en staðfesti þó tilsvör konu sinnar sem hún lét flakka eitt sinn þegar hún var farþegi á hjólinu og einhver kallaði hanna hnakkaskraut:
„Ég er of gömul. Ég er ekki hnakkaskraut, ég er þurrskreyting.“
Reksturinn gekk vel en þó komu upp atvik sem varla teljast til daglegra starfi við rekstur áningarstaðar við þjóðveginn.
Hann segir frá því að eitt sinn í aðdraganda bankahrunsins árið 2008 kom þar aðvífandi þyrla sem lenti á planinu hjá honum en þar á ferð voru auðmenn sem höfðu verið við laxveiðar í Kjarará en þeirra eini tilgangur var að kaupa sér pylsu. Þegar kom að því að borga kárnaði gamanið því þeir gátu með engu móti greitt fyrir varninginn og því varð Kibbi að skrifa hjá þeim. Það fylgdi sögunni að mennirnir, sem hann vildi ekki nafgreina, gerðu þó upp við hann að fullu.
Við annað tækifæri kom Kristberg til vinnu einn morguninn en þá rak hann augun í að einhver ferðamaður hafði tjaldað tjaldi sínu á lóð verslunarinnar.
„Það er örsjaldan sem það liggur illa á mér og þegar ég fer á bakvið til að sækja blað dauðans, eða Morgunblaðið, þá sé ég tjaldið þarna fyrir utan og fyrir utan tjaldið eru gönguskór. Og ég veit ekki af hverju það fauk svona í mig en ég fór og tók upp alla tjaldhælana og svo tók ég bara í tjaldið og hljóp með það. Ég hef aldrei á ævinni séð svona; andlitið. Þegar hann kom út, karl greyið, skelfingin á andlitinu á honum. Hann rauk upp á hjólið og rauk í burtu. Þetta hefur ekki verið góð landkynning.“
Kibbi er frábær sögumaður en viðtalið má sjá í heild sinni hér.