Sigurður Hjartarson lést 2. febrúar síðastliðinn á líknardeild Landakotsspítala, 82ja ára að aldri. Sigurður var þjóðinni kunnur sem stofnandi Hins íslenzka reðasafns. Sigurður starfaði lengst af sem framhaldsskólakennari og var hann óhræddur við að fara líflegar og ótroðnar slóðir í kennsluháttum sínum. Svo mikið er víst að Sigurður snerti líf margra sem minnast hans með hlýhug og kærleika.
Lilja Svanbjörg Sigurðardóttir dóttir hans greindi frá andláti hans í opinni færslu á Facebook. Útför Sigurðar fer fram í kyrrþey.
Sigurður lætur eftir sig eiginkonu, Jónu Kristínu Sigurðardóttur og fjögur uppkomin börn, þau Sigríði Elfu, Hjört Gísla, Þorgerði og Lilju Svanbjörgu.