Þann sjöunda mars árið 1989 mátti litlu muna að áhöfnin í Nönnu VE, færist er báturinn sökk undan henni.
Sigurjón Óskarsson, skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur, bjargaði bróður sínum, Leó Óskarssyni skipstjóra á Nönnu VE og sex skipverjum hans þann sjöunda mars árið 1989 er Nanna VE sökk út af Reynisdröngum. Litlu mátti muna að ekki færi verr en áhöfnin hafði um kortér til að koma sér frá borði.
Árni Johnsen, þá blaðamaður Morgunblaðsins fjallaði um málið í Mogganum en hann tók meðal annars viðtal við skipverja Nönnu VE. Hér fyrir neðan má lesa umfjöllunina:
Stökk í bátinn þegar brúarglugginn lagðist í sjó – segir Leó Óskarsson skipstjóri á Nönnu VE
Vestmannaeyjum, frá Árna Johnsen, blaðamanni Morgunblaðsins
„ÞEGAR ég gaf fyrirskipun um að gera björgunarbátana klára var ég enn að reyna að keyra upp bátinn, sem var þá nær kominn á hliðina,“ sagði Leó Óskarsson skipstjóri á Nönnu VE í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi en Nanna sökk sem kunnugt er í fyrrakvöld út af Reynisdröngum. „Tveir skipverjanna fóru í sjóinn til þessa að reyna að rétta annan gúmmíbjörgunarbátinn við en hann reyndist hafa blásist upp á hvolfi. Þá var útséð með það að ekki væri hægt að ná bátnum upp — slagsíðan var svo mikil — svo ég kúplaði frá vél til þess að mennirnir yrðu ekki í lífshættu. Á sama tíma var hinn báturinn gerður klár og þegar ég stökk í þann bát var brúargluggarnir á Nönnu að leggjast i sjó. Við sáum bátinn ekki sökkva því okkur rak strax frá honum. „Þegar við gáfum út neyðarkallið klukkan 20.16,“ sagði Leó, „vorum við enn að reyna við að bagsa við að ná bátnum upp, losna við veiðarfærin og höggva á vírana. Það gekk ekki. Björgunarbátanir voru bundnir saman þannig að þegar við vorum komnir um borð í bátinn sem var á réttum kili þá var hinn báturinn sem var á hvolfi dreginn að og strákarnir tveir sem voru á honum komu yfir í bátinn til okkar. Við lokuðum þá bátnum öðru megin en notuðum hitt opið til þess að vera á útkikki. Eftir nokkurn tíma sá ég Ijós frá bát og skaut þá upp neyðarblysi og kveikti á handblysi. Þetta reyndist vera Sigurjón bróðir minn á Þórunni Sveinsdóttur. Það var gott að sjá þá koma. Þeir tóku okkur síðan um borð um netalúguna og það gekk allt mjög vel. Fimm okkar komust í flotgalla og það munaði mjög miklu en það var ekki talið ráðlegt að ná í tvo galla sem voru aftar í bátnum því hann hallaði svo mikið þegar þar var komið. Þegar ég fór í gallann var báturinn nær alveg á hlið og ég stóð hálfpartinn á hliðarinnréttingunum.“
„Jú, það er erfitt að lenda í þessu. Það er búin að vera ofsaleg vinna við að endurbyggja þennan bát, tveggja ára stanslaus vinna og nú er það verk allt til einskis. Það er í rauninni rosalegt að lenda í þessu en maður verður að taka svona óhöppum eins og þau eru. Það sem skiptir öllu máli er að menn björguðust og eru heilir á húfi. Ég vil færa innilegar þakkir til allra þeirra sem aðstoðuðu okkur, áhafnarinnar á Þórunni Sveinsdóttur sem bjargaði okkur, áhafnarinnar á Sunnubergi, sem ofkeyrði vélina til að reyna að aðstoða okkur, til starfsmanna á Vestmannaeyjaradíó og allra annarra, sem þéttu björgunarnetið þegar á reyndi. Þá vil ég þakka skipverjum mínum fyrir æðruleysi og örugg viðbrögð á hættustund.
Menn voru rólegir og yfirvegaðir
„ÉG VAR uppi í brú með skipstjóranum, þaðan sem spilinu er stjórnað þegar togfestan varð, skipið fékk sjó í sig og byrjaði að halla,“ sagði Ragnar Sigurbjörnsson vélstjóri á Nönnu VE í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. „Það náðist ekki að loka toglúgunni — veiðarfærin voru föst og það varð ekki við neitt ráðið. Við höfðum 10-15 mínútur til þess að reyna björgunaraðgerðir, en án árangurs og á þessum tíma náðum við einnig að gera flotgallana klára fyrir flesta og koma björgunarbátunum í sjó.
Menn voru mjög rólegir og yfirvegaðir, báturinn var eiginlega lagstur á hliðina þegar við fórumí gúmmíbjörgunarbátana. Við höfðum ekki náð í galla fyrir alla, því að tveir gallar voru aftur í og við tókum ekki áhættuna á að fara niður í skipið. Við fórum tveir fyrstir frá borði til þess að reyna að rétta við bakborðsbjörgunarbátinn, sem hafði blásist upp á hvolfi, því við vissum ekki hvernig gengi að ná bátnum á stjórnborðshliðinni, þeirri hlið sem báturinn hallaðist á. Við náðum ekki að rétta bátinn við en eftir að síðari björgunarbáturinn var leystur frá Nönnu þá voru bátamir dregnir saman og við sameinuðumst í öðrum bátnum. Mér fannst skipta miklu máli hvað menn voru rólegir og yfírvegaðir og brugðust rétt við. Ég vil þakka áhöfninni á Þórunni Sveinsdóttur fyrir frækilega björgun og öðum þeim sem aðstoðuðu okkur,“ sagði Ragnar Sigurbjörnsson.