Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Sigursteinn Másson er með Covid og varar við nýjum afbrigðum: „Mikil hætta á ferðum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigursteinn Másson, kvikmyndagerðarmaður, framleiðandi og handritshöfundur með meiru, er með Covid-19 í fyrsta sinn og vill vara fólk við hinum nýju afbrigðum kórónuveirunnar sem nú greinast í síauknum mæli víða um heim. Þau virðast bæði bráðsmitandi og ónæmari gegn bólusetningum og fyrri sýkingum en önnur afbrigði sem á undan komu.

Sigursteinn er nú á sjötta degi veikinda sinna og segist hafa farið í gegnum „allt hlaðborðið af einkennum“, fyrir utan þó að missa bragð- og lyktarskyn.

„Þetta er ævintýraferð,“ segir hann þegar blaðamaður spyr hvernig heilsan sé. Hann segist hafa haldið og vonað að hann hafi verið kominn í var hjarðónæmis, þar sem hann hafi ekki smitast af veirunni áður. Það hafi því miður ekki verið raunin. „Þessi veira hefur þróast þannig núna að hún er að sjá svona rækilega við sjálfri sér.“

Sigursteinn segir að talað hafi verið um Omicron sem vægt afbrigði, enda hafi fyrstu afbrigðin sem komu frá Suður-Afríku verið það. „En það sem hefur verið að gerast núna í vor, sérstaklega svo núna í júní og byrjun júlí, er að þessi B4 og B5 afbrigði eru bara alveg búin að taka yfir. Einkenni þeirra eru meira eins og Alfa- og Delta-afbrigðin, sem var upphafið að þessu öllu saman á Íslandi og í heiminum. Það versta við þetta, sem maður les núna, er að þetta myndar ekki ónæmi gegn sjálfu sér eins og öll fyrri afbrigði hafa gert. Sumar greinarnar sem ég hef verið að lesa núna í morgun segja að allt bendi til þess að fólk geti þess vegna verið að smitast af þessum tegundum af Omicron á mánaðarfresti. Þá erum við í verulega vondum málum.“

Undanfarið hafa fréttir borist af fjölgandi smitum Covid-19, til að mynda í Bretlandi og Bandaríkjunum. Smitum hefur einnig fjölgað talsvert hér á landi. Hin nýju afbrigði Omicron, BA.4 og BA.5, virðast keyra undanfarna aukningu áfram, en afbrigðin bera nú ábyrgð á yfir helmingi nýrra smita í Englandi. Á vef CNN í júní birtist frétt sem sagði nýju afbrigðin tvö virðist sleppa fram hjá vörnum bæði fyrri smita og bólusetninga. Samkvæmt frétt NBC frá 7. júlí eru afbrigðin þau langalgengustu í nýjum smitum Covid-19 í Bandaríkjunum og virðast meira smitandi en fyrri afbrigði. Samtals bera afbrigðin ábyrgð á um 70 prósentum nýrra tilfella í Bandaríkjunum.

 

- Auglýsing -

Ýmist í ökkla eða eyra

„Í ljósi þessa, af því að þetta er alveg ný staða, finnst mér skorta umræðu um þetta – ég furða mig í rauninni á því að hafa hvergi séð þetta í fjölmiðlum öðruvísi en að virkilega leita að þessu. Það er ýmist í ökkla eða eyra í þessu. Þetta var alveg fullmikið á sínum tíma; það var ekki hægt að opna fjölmiðla öðruvísi en að allt væri vaðandi í þessu. En núna, þegar við erum í þessari stöðu, þá finnst mér mjög merkilegt að það skuli ekki vera miklu meiri umfjöllun. Maður sér auðvitað að rannsóknirnar eru frekar svona á byrjunarstigi. Þau hafa verið að rannsaka hamstra og eitthvað, til þess að reyna að skoða samanburðinn á þessu og öðrum afbrigðum. En það sem kemur í ljós er að einkennin af þessu eru alvarlegri en af fyrri afbrigðum Omicron, það góða við það var að það fór ekki í lungun. Þess vegna hefur það ekki drepið fólk eins mikið og fyrri afbrigðin. En þetta getur farið í lungun. Þetta er búið að taka yfir öll hin afbrigðin og það hefur bara gerst á nokkrum dögum. Þannig að ég er bara hissa á því að það skuli þá ekki allavega vera umræða um það, að fólk sé þá ekki að láta eins og enginn sé morgundagurinn.“

Honum þykir það andrúmsloft alltumlykjandi, að allt sé í lagi og ekkert hafi í skorist. „Við þurfum að fara varlega og þetta er ný staða. Ég skil ekki hvers vegna sóttvarnalæknir er ekki að koma opinberlega fram með þetta.“

Sigursteinn segist ekki í nokkrum vafa um að hann sé með annað þessara nýju afbrigða, líklega BA.5, miðað við þau einkenni sem hann hefur haft. Honum finnst mikilvægt að fólk sé meðvitað um þessa nýju stöðu, þar sem smitum hafi fjölgað gríðarlega síðustu daga vegna afbrigðanna.

- Auglýsing -

„Ég myndi aldrei fara að mæla með einhverjum ströngum aðgerðum af því að ég var heldur aldrei hrifinn af slíkri aðferðafræði. En þess þá heldur, held ég þá að fólk þurfi að gæta sín áður en komið er í algjört óefni með þetta. Það gæti gerst mjög hratt. Miðað við það að þeir eru að tala um að þetta smitist 30 til 40 prósent meira en önnur Omicron-afbrigði og þau hafa smitast miklu meira en öll fyrri afbrigðin. Þegar við erum komin með afbrigði sem hegða sér á margan hátt og valda einkennum eins og Alfa og Delta, en miklu meira smitandi en þau, og mynda ekki ónæmi gegn sjálfum sér, þá geta bara orðið raðveikindi út úr þessu.“

 

Hefur áhyggjur af samkomum á næstunni

Hann segist telja mikilvægt að farið verði yfir stöðuna og það hvernig best sé að hegða sér. „Áður en við förum inn í verslunarmannahelgina og þetta sem er fram undan.“

„Ég er bara leikmaður að fara í gegnum þetta núna og upplifa þetta, en ég sit náttúrlega hérna í kófinu og hef ekkert annað að gera en að lesa bæði fræðigreinar og umfjöllun erlendra fjölmiðla um þetta. Ég sé bara á síðustu dögum að það eru að koma fram upplýsingar sem hljóta að kalla á, ekki einhverjar strangar aðgerðir, en að almenningur sé hvattur til þess að fara gætilega. Ég heyri af partíum heima og svo eru veikindi í kjölfarið og fólk bara einhvern veginn lætur sig hafa það. En það er bara tímspursmál hvenær þetta springur í andlitið á okkur ef við ætlum ekki að gæta okkar.“

 

Grímurnar minnst íþyngjandi

Sigursteinn er staddur á Spáni í fríi. Hann segir reglur þar ekki miklar, en það sé þó grímuskylda á vissum stöðum.

„Hér þarf maður að vera með andlitsgrímu í lestunum og auðvitað í flugvélum. Í apótekum þarf maður að vera með grímu og á sjúkrahúsum er grímuskylda. Þannig að þetta er bara eins og heima, nema að þessi grímuskylda er til staðar.

Ég held að það væri alveg hægt að íhuga það heima, því það er auðvitað vægasta formið á þessari frelsisskerðingu sem við höfum þurft að fara í gegnum að mínu mati, það er þessi grímuskylda. Og ein sú áhrifamesta. Þá er maður ekki að frussa framan í fólk. Þannig á þetta að geta verið, ef hver og einn er varkár.

Það sem er náttúrlega verst í þessu eru fylleríssamkomurnar, þar sem hverfa náttúrulega öll mörk. Núna vona ég að ég sé ekki að mála skrattann á vegginn, en ef ég skil þessar frétta- og vísindagreinar rétt, þá er hér bara mikil hætta á ferðum.“

Hann nefnir sömuleiðis viðkvæma hópa samfélagsins. „Ég á eftir að klára þetta, en móðir mín… Ef einkennin sem ég er að fara í gegnum er það sem fólk má almennt eiga von á með þessi nýju afbrigði, og ef þetta verður jafn útbreitt smit og hætta er á, þá býð ég ekki í það.“

Hann segir okkur virkilega verða að fara að læra að lifa með ástandinu eins og það er.

„Þetta kallar á breyttan lífsmáta. Á að við gerum hlutina öðruvísi og gætilegar. Að við sýnum hvert öðru meiri nærgætni.“

 

Horfum fram á nýja tíma

Sigursteinn segir okkur horfa fram á nýja tíma. „Veiran virðist vera búin að sjá leið. Öfugt við það sem maður hélt, að Omicron-afbrigðið myndi verða til þess að við myndum loksins ná hjarðónæmi og losna við þetta – þetta myndi bara hverfa inn í sumarið – þá er hún bara búin að finna enn eina leiðina. Kannski vissu Kínverjarnir eitthvað sem við erum að komast að núna, og voru þess vegna með sínar dragonísku og hörðu aðgerðir, og eru með enn þá fram á þennan dag. Það er allavega ljóst að hún er að leika á okkur enn í dag. Þetta er lúmskur skratti, en við verðum að bera virðingu fyrir henni af því að þetta er einhver vera sem er ansi mikið að kenna okkur lexíu,“ segir Sigursteinn.

„En það er undir okkur hverjum og einum komið hvort við látum þetta setja okkur á einhvern svona stað eins og við vorum á, með tilheyrandi ömurð, leiðindum og erfiðleikum, eða hvort við lærum einhvern veginn í alvörunni að lifa með þessu. Skilja hvað þetta er.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -