Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Simbi var á kafi í undirheimunum en sneri við blaðinu: „Það er leið út úr þessu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þetta er brot úr viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs.

 

Sigmundur Geir Helgason, sem ávallt er kallaður Simbi, var í harðri neyslu um árabil og lifði og hrærðist í undirheimunum. Hann framfleytti sér með glæpum, lenti í fangelsi og missti tengslin við það sem gæti talist eðlilegt líf. Simbi var djúpt sokkinn í neyslu; fyrstu árin var það amfetamín, sem svo þróaðist út í blöndu af efnum og síðasta árið var hann kominn út í mikla morfínneyslu. Þegar tveir vinir hans létust úr alkóhólisma kom augnablikið sem hann ákvað að horfast í augu við sjálfan sig og snúa við blaðinu í eitt skipti fyrir öll. Honum bauðst að lengja meðferðartíma á Hlaðgerðarkoti í staðinn fyrir fangavist, sem hann þáði feginn og nýtti sér alla þá aðstoð sem honum bauðst.

 

Hjálpar öðrum að verða edrú

Simbi segir ekki ýkja mörg dæmi um menn sem hafi verið djúpt sokknir í undirheimana og náð að koma sér út úr þeim og algjörlega snúið við blaðinu.

„Þeir eru til, en við erum ekki margir. Og það er gaman að segja að við erum fyrirmyndir og þurfum að standa okkur, svo aðrir geti horft á okkur og hugsað: „Það er leið út úr þessu.“ Það er leið. Ég veit að ég er fyrirmynd af því að mér er sagt það. Ég var með svona fyrirmynd líka, til þess að horfa á og til þess að komast áfram. Þannig að þetta er hægt.“

- Auglýsing -
Þarna var Simbi á hvað verstum stað í neyslunni. Það var um þetta leyti sem hann hringdi á Hlaðgerðarkot.

Simbi hefur lagt sitt af mörkum til þess að hjálpa öðrum sem eru á slæmum stað, eins og hann var sjálfur.

„Já, ég hef verið að hjálpa strákum. Í AA samtökunum, leiðbeina þeim við það hvernig á að verða edrú og hvað maður á ekki að gera. Svo hafa líka margir sem eru edrú komið og sagt söguna sína og segjast hafa séð mig á fundi og hugsað: „Ef hann nær þessu, þá ætla ég að ná þessu.“ Þeir eru edrú í dag. Það er gaman að sjá þetta líka. Án þess að gera sér grein fyrir því, þá er maður að hjálpa. Bara með því að vera edrú. Þannig að þetta snýst svolítið mikið um að hjálpa hver öðrum.

Það er gaman að vera til taks líka. Þessi sjúkdómur er líka í fjölskyldunni minni og ég reyni að hjálpa til þar. Þar er einnig leitað til mín. Við stöndum saman sem glímum við þennan sjúkdóm, þetta snýst um það.“

- Auglýsing -
Í dag er Simbi sem nýr maður og ber það sannarlega með sér.

Simbi segist afar heppinn með fjölskylduna sína.

„Ég á rosalega góða fjölskyldu. Amma og afi misstu aldrei trúna á mér. Ég var alltaf Simbi, litli strákurinn þeirra. Það var rosalega gott, þegar maður var á versta staðnum þarna, að hugsa að það var fólk sem missti ekki trúna á manni. Það eru rosagóð tengsl í fjölskyldunni minni. Ég var alveg búinn að missa tengslin við bræður mína í svolítinn tíma, en við erum aftur orðnir alveg rosalega nánir. Sérstaklega yngri bróðir minn og ég. Eins og við vorum á sínum tíma.

Stóri bróðir minn myndi gera allt fyrir mig. Hann hefur líka staðið með mér. Fyrstu mánuðina þegar ég var edrú var ég á áfangaheimili. Þá þurfti ég bara að hringja í hann ef mig vantaði aðstoð. Ég vissi ekki í hvern ég ætti að hringja. Hann aðstoðaði mig strax. Það voru allir tilbúnir að hjálpa um leið og ég var búinn að sanna að ég ætlaði að verða edrú.

Það þurfti að taka góðan tíma í meðferð, koma út og halda áfram; þá fékk ég aðstoð. Það er ómetanlegt. Ég er kannski einn af þeim heppnu. Ég myndi halda það.

Svo er það konan mín. Við kynntumst þegar ég var búinn að vera edrú í næstum því tvö ár og ég hefði ekki getað þetta allt saman án hennar.

Ég held líka að þetta sé smá heppni – hvernig líf mitt er búið að blómstra á góðan hátt og ég hef ekki farið í hina áttina aftur. Mér finnst ég ekki alveg geta sett kreditið á mig, þótt ég hafi unnið vinnuna. Og sé að vinna vinnuna. Þá tel ég guð hafa sent ákveðið fólk til mín í mínar aðstæðum og hjálpað mér að leysa þær. Af hverju ekki? Kannski bara guð – hann er náttúrlega að leikstýra sýningunni. Það er svolítið þannig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -