Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Simmi lætur stjórnmálamenn fá það óþvegið: „Þegjandi meirihlutinn sem bara er látinn borga brúsann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson, eða betur þekktur sem Simmi Vill, deilir á Facebook pistli þar sem hann lætur íslenska stjórnmálamenn heyra það. Hann segir að atvinnurekendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja greiði hlutfallslega hærri gjöld en stóru fyrirtækin. Enn fremur segir Simmi að aðgerðir Seðlabankans kosti þessa sömu aðila milljarða króna.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Simma í heild sinni.

Nýtt ár og stjórnmálin skála.

Nú þegar stjórnmálamenn eru búnir að hrósa hvor öðrum í Kryddsíldinni og við búin að halda uppá áramótin þá tekur raunveruleikinn við. Verðhækkanir og skattahækkanir á millistéttina í þessu landi blasir við. Lítil og meðalstór fyrirtæki halda áfram að fá á sig verðhækkanir og launahækkanir. Síðan eru þessir sömu aðilar beðnir um að sína ráðdeild og hækka ekki verð til að ýta ekki undir verðbólgu, ferðast ekki erlendis og fara sér hægt í að njóta erfiðisins.

Nú veit ég ekki hvort að stjórnmálamenn séu svo úr takti við raunveruleikann að þeir átta sig ekki á því að ekki er hægt að taka á sig hækkað verð aðfanga og hærri launagreiðslur án þess að hækka verð eða hvort að þeir hafi hreinlega enga þekkingu á því hvernig megin þorri atvinnulífsins virkar eða hvað það þýðir að reka fyrirtæki.

Ég hef bent á það í töluvert langan tíma að atvinnurekendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja eru að greiða hlutfallslega hærri gjöld og skatta til ríkisins en stóru fyrirtækin. Eru þingmenn ekki að sjá það, hafa þingmenn ekki þekkingu eða er þingmönnum  bara sama um það?

- Auglýsing -

Það má segja að atvinnulífið sé eins og umhverfi heimilanna. Það er lágstétt sem nær ekki endum saman, það er hástétt sem skilar gríðarlegum hagnaði og síðan er það millistéttin sem er látin bera uppi allan kostnað, skatta og gjöld.

Þegjandi meirihlutinn sem bara er látinn borga brúsann og hætta að láta sig dreyma um að gera sér glaðan dag, vinna bara meira.

Ég hef bent fjármálaráðherra (Bjarni Benediktsson) á þá staðreynd að með hverjum 1.000kr sem laun hækka í nýjustu launahækkunum, hækka skatttekjur Ríkisins um að lágmarki 314,5 kr. Það þýðir að með þeim launahækkunum sem eru nú að ganga í garð þá hækka tekjur Ríksins gríðarlega, hunduðir milljarða. Hvert á að setja þessa peninga?

- Auglýsing -

Aðgerðir Seðlabankinn kosta lítil og meðalstór fyrirtæki miljarða á milljarða ofan, en skuldir fyrirtækja í landinu eru um 5.000 milljarðar og hvert 1% kostar fyrirtækin í landinu 50 milljarða.

Seðlabankastjóri hefur bent á að þetta er eina tækið sem Seðlabankinn hefur til að sporna við verðbólgu, en hefur einnig bent á að Ríkið hefur fullt af möguleikum í stöðunni. En það hefur nákvæmlega ekkert komið frá Ríkinu til þess að sporna við stöðu fyrirtækja í þessu umhverfi.

Ég hef bent á það að til þess að sporna gegn verðbólgu þá væri tilvalið að horfa á Tryggingagjaldið, gera það þrepaskipt eins og Framsóknaflokkurinn (Sigurður Ingi Jóhannsson) setti fram í kosningaloforðum síðustu kosninga. Það myndi jafna leikinn í atvinnulífinu. Enda algjörlega galið að fyrirtæki sem eru að greiða hátt hlutfall launa skuli líka þurfa að borga hærra hlutfall tryggingagjalds. En fyrir þá sem ekki vita, þá eru lítil og meðalstór fyrirtæki með hlutfallslega mun hærra launahlutfall en stórfyrirtækin hér á landi.

Almennir borgarar eiga í daglegum viðskiptum við lítil og meðalstór fyrirtæki, ef að við getum hækkað hér laun án þess að hækka vöruverð, þá spornum við gegn verðbólgu og um leið staðið vörð um þau störf sem er að finna í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Með því að hlutfalla tryggingagjald, jafnvel miða hér við veltu en ekki laun, þá myndi það ekki bara jafna stöðu fyrirtækja á Íslandi, heldur myndi það gera fyrirtækjum kleift að hækka hér laun án þess að það skili sér beint inní verðlagið.

Já, vel á minnst, rúmlega 70% allra launþega á íslandi starfa hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Núna verða stjórnmálin að taka hausinn uppúr sandinum, atvinnulífið þarf á athygli að halda og þá er ég ekki að tala um Hlutabréfamarkaðinn eða stór fyrirtækin.

99% allra fyrirtækja hér á landi eru lítil eða meðalstór og þau fá alltof litla athygli stjórnmálanna, svo ekki sé talað um athygli Samtök atvinnulífsins.

Það eru til þúsund leiðir að flá gölt, kominn tími á að velja fleiri en eina

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -