Sverrir Þór Sverrisson. Sveppi. Í viðtali við Reyni Traustason segir hann frá því hvernig nafnið Sveppi kom til, hann talar um æskuárin þegar hann vildi fíflast og vera fyndinn, árin í FB þar sem hann var í vídeó- og skemmtinefnd, tímann á grænmetislagernum, upphaf ferilsins sem hann er þekktur fyrir, sem var að ganga hringinn í kringum Ísland í tvo mánuði, hann talar um hrekkina og áskoranirnar í sjónvarpinu, svo sem þegar hann hljóp allsber niður Laugaveginn, jákvætt áreitið og svo talar hann örlítið um fjölskylduna. Hann talar líka um hvað sé fram undan og hvort hann vilji verða gamalmenni á Spáni. Hér er brot úr viðtalinu.
Gekk hringinn
Það var á þessum tíma, árið 2000, sem Sveppi fékk símtal frá Jóa og Simma um hvort hann væri ekki „sniðugt eintak“ til að ganga hringinn í kringum Ísland.
„Ég þurfti nú aðeins að hugsa það,“ segir Sveppi, en hann ákvað svo slá til.
„Þeir voru að vinna á útvarpsstöð sem hét Mono og voru með þátt þar, Simmi og Jói, sem hét Sjötíu og var frá sjö til tíu á morgnana. Morgunþáttur. Það var að koma sumar og þeir vildu gera eitthvað skemmtilegt um sumarið. Og þá datt þeim í hug að fá einhvern rasshaus eins og mig til að labba hringinn í kringum landið. Það var alltaf partí á hverjum stað. Ég lagði af stað 1. júní árið 2000 og kom til baka 3. ágúst. Ég var í tvo mánuði og gekk að meðaltali um 25 kílómetra á dag.“
Félagi Sveppa var á bíl með tjaldvagn.
Var mikill peningur í þessu?
„Þá fékk ég verktakalaun. Þetta var 200.000 kall á mánuði.“
Jú, gangan hófst.
Ég er búinn að labba síðan ég var tveggja ára; var búinn að æfa mig helvíti mikið.
„Ég var í gönguskóm en eftir fyrstu tíu dagana var ég handónýtur. Það var allt í hakki. Menn sögðu „ertu búinn að æfa þig?“. Æfa mig? Ég er búinn að labba síðan ég var tveggja ára; var búinn að æfa mig helvíti mikið. Búinn að labba í 20 ár. Ég hlýt að geta labbað hringinn í kringum Ísland. En ég var stirður í hnésbótinni og með blöðrur á tánum. Þetta var dálítið bras fyrstu dagana. Svo vann ég mér í haginn, einhvern tímann. Ég vaknaði kannski klukkan sex um morguninn þann daginn, labbaði bara maraþon, 42 kílómetra, og þá vann ég mér inn nánast bara frídag. Pabbi var búinn að skrifa nákvæmlega hvað ég þurfti að labba á dag til þess að ná hringnum. Hann bjó til bók þar sem hann hafði skrifað „Reykjavík – Hvalfjörður 25 kílómetrar. Áhugaverðir staðir til að skoða.“ Þá var hann með landafræðibók. Hann gaf mér bók sem ég studdi mig við. Þetta var æðislegt.“
Tveir mánuðir.
„Þetta var langur tími. Ég var þarna með vini mínum og við vorum ekki að gera neitt annað en að labba. Berufjörðurinn er „hell“. Þegar þú ert að koma inn í Berufjörðinn austan megin þá sérðu yfir í Djúpavog, en þú átt eftir að labba hann allan út í enda og til baka. Svona firðir eru vesen. Mér finnst leiðinlegt að keyra þá, hvað þá labba.“
Sveppi svindlaði. „Ég svindlaði þegar ég var að koma inn á Akureyri. Þá fannst mér svo plebbalegt að labba í gegnum Akureyri. Við stoppuðum rétt fyrir utan Þelamörk. Við keyrðum fram hjá Þelamörk, en þar var ég búinn með daginn og þar fórum við inn á hótel og svo byrjaði ég daginn eftir hinum megin við brúna.“
Þannig að ég gleymdist á ákveðnum köflum.
Virkaði þetta í útvarpinu og var stemming í kringum ferðalagið?
„Til að byrja með. Eftir Akureyri þá gleymdist ég svolítið í útvarpinu. Þá voru þeir hættir að hringja í mig strákarnir, Simmi og Jói. Gleymdu að hringja í labbikarlinn. Þannig að ég var einhvers staðar á Mývatni ráfandi um; að labba og reyna að koma mér á Egilsstaði. Tómt vesen. Það er dálítið langur spotti, fannst mér. En það var grillað á Egilsstöðum. Eitthvað húllumhæ. Það átti að hringja í mig á hverjum degi, en svo er takmarkað hvað maður getur talað á hverjum degi, labbikarlinn. Þannig að ég gleymdist á ákveðnum köflum. Svo þegar ég kom í bæinn þá fór útvarpsstöðin á hausinn, held ég. Þetta var það síðasta sem þessi útvarpsstöð gerði – að láta mig labba í kringum landið.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.
Þá er einnig hægt að horfa á það hér fyrir neðan.