Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi hafa síðustu daga farið um höfuðborgarsvæðið í leit að heimilislausum hælisleitendum, svo hægt sé að hjálpa þeim. Yfirvöld hafa enn ekki svarað tölvupósti frá samtökunum, sem sendur var á þau fyrir nokkrum dögum.
Samtökin sendu frá sér færslu á Facebook þar sem þau segjast hafa sent tölvupóst á fjöldi aðila sem tengjast yfirvöldum með einum eða öðrum hætti, þar á meðal á forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóra og fleiri, án þess að fá svar.
„Á meðan þessir aðilar neita allir að axla ábyrgð og koma flóttafólki sem nú er á götunni til aðstoðar, benda ítrekað hver á annan og halda á lofti gaslýsandi umræðu þar sem tilraunir eru gerðar til þess að afmennska flóttafólk og gera lítið úr neyð þeirra, hafa sjálfboðaliðar, meðal annars frá Solaris, farið um höfuðborgarsvæðið og aðstoðað heimilislaust flóttafólk sem getur ekki uppfyllt grunnþarfir sínar.“
Færsluna má lesa í heild hér fyrir neðan og lesa má tölvupóstinn enn neðar:
„Í gær sendu samtökin tölvupóst á forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, félagsmálaráðherra, ríkislögreglustjóra, formann sambands íslenskra sveitarfélaga, formann sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þá borgar- og bæjarstjóra sem hafa tekið þátt í umræðu um heimilslaust flóttafólk síðustu daga.