Allir verða yfirheyrðir í dag.
Í gær voru sjö einstaklingar handteknir í tengslum við skotárás sem átti sér stað í Úlfarsárdal í gær en þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdar voru húsleitir í framhaldinu af handtökunum en ekki liggur fyrir hvort að vopn hafi fundist í þeim húsleitum.
Grímur segir að almenningur hafi veitt lögreglunni talsvert af upplýsingum en fólk í Úlfarsárdal og Grafarholti var hvatt til að athuga upptökur úr öryggismyndavélum og senda allt grunsamlegt áfram til lögreglu.
Málið er ennþá í rannsókn og útilokaði Grímur ekki að fleiri einstaklingar kynnu að vera handteknir í kjölfar yfirheyrsla.