Sjóarinn brá sér vestur á firði og hitti þar útgerðarmanninn, fiskverkandann og sjómanninn Þorgils Þorgilsson á Flateyri sem gerði hlé á flökun til að veita viðtal.
Þorgils keypti bátinn Eið, sem var 30 tonna snurðvoðabátur og gekk það vel allt þar til áfallið reið yfir. Snjóflóð féll á höfnina á Flateyri í janúar 2020 og eyðilagðist bátafloti bæjarins á einu bretti.
Þorgils: „Það fóru allir bátarnir. Og ég var þá nýkominn með hann [bátinn innsk. blm.] Ég var að græja hann og var að fara að byrja. Hann var að koma úr slipp frá Stykkishólmi. Var búinn að skvera hann allan upp og við vorum bara að vinna í honum að fara á snurðvoð.“
Reynir: „Og varstu nýbúinn að vera um borð?“
Þorgils: „Já, við vorum búnir að vera allan daginn en þetta gerist um ellefu, hálf tólf um nóttina. Rafmagnið fer af um klukkan ellefu, svona tíu eða ellefu. Og ég var þá að horfa á einhverja bíómynd. Ég þarf alltaf að fara um borð þegar það slær út rafmagni og slá því inn aftur af því að það er svona þriggja fasa, það slær ekki inn sjálft þegar rafmangið kemur. Og ég sé á sjónvarpinu að ég þurfi að fara um borð og slá inn rafmagninu svo það myndi ekki allt frjósa um nóttina. En svo ákveð ég að klára fyrst myndina og fara svo um borð. Svo klukkan hálf tólf er ég að labba heiman frá mér til að fara um borð en skil ekki af hverju allt er á floti. Ég var alveg rennandi blautur. Ég var í stígvélum en það var allt á floti. En ég sá alltaf ljós niðri á bryggju, hélt að það væri bíll þarna. En þá var það staurinn sem hafði farið niður, mastrið.“
Reynir: „Það hefur verið óhugnanleg sjón sem hefur mætt þér?“
Þorgils: „Já. Allt farið. Og í því hringir Birkir [Einarsson innsk. blm.] í mig en hann hafði fengið meldingu í símann, hann hefur verið með einhverjar græjur um borð. Hann spyr mig hvort það sé ekki allt í lagi, hann hafi verið að fá tilkynningu í símann. En ég sá ekki neitt. En ef ég hefði farið hálftíma fyrr, ef ég hefði ekki klárað bíómyndina, þá hefði ég verið um borð að slá inn rafmagninu.“
Sjáðu þáttinn í heild sinni hér.