Söluturninn Draumurinn stóð við Rauðarárstíg til margra ára. Þangað leituðu útigangsmenn og fíklar enda var þar hægt að festa kaup á hinum ýmsu fíkniefnum og lyfjum. Þrátt fyrir ítrekaða aðkomu lögreglu hélt reksturinn áfram fram til ársins 2010. Þá var eigandinn, Júlíus Þorbergsson, borinn út.
„Við erum búnir að innsigla og það verður væntanlega gerð krafa um það að þessi staður verði ekki notaður áfram til ólöglegrar starfsemi,“ sagði Geir Jón Þórisson, þáverandi yfirlögreglustjóri, í samtali við mbl.is
Sjö árum áður, í maí árið 2003 birtist frétt í DV þar sem fram kom að við húsleit í söluturninum hafi fundist ýmislegur ólöglegur varningur. „Samkvæmt heimildum DV fannst haglabyssa við húsleitina í söluturninum Draumnum viö Rauðarárstíg í fyrradag og er byssan nú í haldi lögreglunnar. Eins og fram kom í DV í gær fundust fíkniefni í söluturninum, smyglað áfengi og tóbak. Þrír menn voru handteknir í tengslum við málið en tveimur þeirra hefur verið sleppt að yfirheyrslu lokinni. Einn maður er enn i haldi lögreglunnar. Starfsmenn Tollstjórans í Reykjavík hafði lengi grunað að þar væri boðið upp á ólöglega innflutt áfengi og tóbak og því var látið til skarar skríða. Við húsleit fannst talsvert af smyglvamingi, auk eiturlyfja, og var fíkniefnalögreglu gert viðvart um það. Söluturninn hefur lengi verið þekktur fyrir að vera eins konar athvarf drykkjumanna og hafa nágrannar oft kvartað undan ónæði vegna viðskiptavina staðarins.“ Staðnum var lokað í stutta stund eftir húsleitina árið 2003. Viðskiptin héldu þó áfram að blómstra, þrátt fyrir ólöglega sölu áfengis, tóbaks, lyfja og fíkniefna.
Snemma árs 2010 birti Vísir stutta og laggóða frétt þess efnis að Draumurinn stæði fyrir sölu á lyfinu Rítalín. Misnotkun á lyfinu er þekkt en almennt er það notað við ofvirkni og athyglisbrest. „Fréttastofa vildi sannreyna málið og fékk manneskju með upptökutæki til að fara í söluturninn Drauminn á Rauðarárstíg og biðja um lyfið Rítalín. Þar fékk hún þau svör að lyfið væri ekki til í augnablikinu en kostaði venjulega þúsund krónur. Matthías segist hafa tilkynnt lögreglunni um málið en hún hafi lítið sem ekkert aðhafst.“
Drauminum var lokað í júní árið 2010. Eigandinn var settur í gæsluvarðhald og seinna dæmdur í 12 mánaða fangelsi.