Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Sjósundgarpar verði vakandi fyrir því hvenær skólpi er hleypt í sjó: „Örverur lifa ekki lengi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vegna mikillar úrkomu og leysinga undanfarið hefur þurft að hleypa óhreinsuðu skólpi út í sjó á höfuðborgarsvæðinu. Almennt má reikna með því í miklum vatnavöxtum. Undir slíkum kringumstæðum verður álagið á fráveitukerfið það mikið að einungis tvær leiðir verða færar: að hleypa skólpinu út í sjó eða að það flæði aftur til baka sömu leið og það kom, inn á heimili landsmanna.

„Sjórinn gengur mjög hratt frá lífrænu efnunum og örverur lifa ekki lengi,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, aðspurð um velferð sjósundsgarpa þegar aðstæður sem þessar skapist. Árið 2017 voru stjórnvöld til að mynda harðlega gagnrýnd fyrir að upplýsa ekki strax um bilun sem varð í neyðarloku skólpdælustöðvarinnar við Faxaskjól. Málið kom upp eftir að Heilbrigðiseftirlitið varaði við sjósundi í Nauthólsvík vegna hárrar gerlatölu sem fannst í sýni sem tekið var á svæðinu.

Ólöf bendir á að skólp sem fari í fráveitukerfið sé mjög útþynnt. „70 prósent af því sem er í skólpinu er hitaveituvatn. Svo þegar allt ofanvatnið bætist ofan á það, þá er þetta orðið frekar mikið útþynnt þegar það fer í sjó.“

Að því sögðu mælir hún þó með því að fólk sem stundi sjósund sé meðvitað um það hvenær óhreinsað skólp sé að renna út í sjó. „Þegar það þarf að hleypa skólpi í sjó, þá er ekkert sniðugt að vera að synda í því akkúrat á meðan. Þess vegna settum við upp það sem heitir „fráveitusjá“, á síðu Veitna.“

Á fráveitusjánni er hægt að fylgjast með stöðunni á dælustöðvum og hreinsistöðvum Veitna. „Þú getur séð hvort þær eru opnar eða lokaðar, í rauntíma. Þú getur líka séð hversu langt er síðan stöð opnaðist. Það hefur verið töluvert undanfarið, enda hafa aðstæður verið erfiðar í fráveitukerfinu. Metúrkoma og mikið af vatni á ferðinni allsstaðar.“

Aðspurð hversu lengi fólk þurfi að halda aftur af sér í sjósundinu, í kringum þau svæði sem verið sé að hleypa skólpi í sjóinn, segist hún ekki geta gefið upp nákvæman tíma.

- Auglýsing -

„Ég get sagt að á þessum árstíma lifa örverurnar í nokkrar klukkustundir og á sumrin lifa þær í einn til tvo tíma. Sjórinn gengur nokkuð vel frá lífrænu efnunum en ég bara bendi fólki á að ef það ætlar í sjó, hérna í Reykjavík allavega, að þá er hægt að kíkja inn á fráveitusjánna og sjá hvort stöðvarnar hafi opnast í kringum þar sem þau ætla að fara í sjó. Fólk má alveg gera sér grein fyrir því að þegar úrkoman er gríðarlega mikil og veður mjög vont, leysingar eða hláka og annað slíkt, þá aukast líkurnar á því að stöðvarnar fari á yfirsnúning. Að það komi of mikið vatn í kerfið þannig að það ráði ekki við það og við þurfum að hleypa hluta af skólpi óhreinsuðu í sjóinn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -