Snúa þurfti sjúkraflugvél Mýflugs frá Reykjavíkurflugvelli í gær vegna veðurs. Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, er mjög ósáttur með ástandið.
„Nú vantaði neyðarbrautina,“ sagði Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, við Akureyri.net í gær „Vélin hefði getað lent hefði ekki verið búið að loka neyðarbrautinni.“
„Þegar lagt var af stað frá Egilsstöðum var fært í Reykjavík en veðrið versnaði þegar vélin var á leiðinni. Þeir gerðu aðflug í Reykjavík en hættu við. Hliðarvindur var kominn út fyrir mörk vélarinnar og ókyrrð var líka mjög mikil. Flugstjórinn mat stöðuna þannig að ekki væri verjandi að reyna lendingu,“ sagði Leifur en neyðarbrautin lá frá suðvestri til norðausturs. Henni hefur nú verið lokað. Leifur sagði einnig að ef hún væri ennþá opin þá hefðu sjúklingarnir komist til Reykjavíkur.
„Þetta er auðvitað mjög alvarlegt,“ sagði framkvæmdastjórinn við Akureyri.net. „Þetta gerist ekki oft en það gerist. Og þegar það gerist getur það skipt sköpum; á það var marg ítrekað bent en forsvarsmenn borgarinnar, borgarstjóri og hans kumpánar, stungu höfðinu í sandinn eins og strúturinn. Þeir hafa sennilega haldið að enginn sæi þá. Vitið er ekki meira en guð gefur,“ sagði Leifur. „Ég kalla þetta dag Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.“