Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-0.3 C
Reykjavik

Sjúkraflugvélin sem hvarf – Tíu börn urðu föðurlaus þetta kvöld

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Snemma árs 1966 óraði dreng nokkrum á Norðfirði ekki fyrir því að hættulegur leikur hans með sprengjur ætti eftir að setja af stað atburðarás þar sem tveir fimmbarna feður myndu stuttu síðar láta lífið og aldrei finnast.

Það var þann 18. janúar að tveir flugmenn Flugsýnar, þeir Sverrir Jónsson og Höskuldur Þorsteinsson lögðu af stað í sjúkraflug frá Reykjavíkur til Norðfjarðar í slæmu veðri. Drengur nokkuð hafði fengið stálflís í augað er hann lék sér með sprengjur. Þegar flugmennirnir sem báðir höfðu mikla reynslu af flugi, nálguðust Norðfjörð hefur eitthvað komið fyrir því flugumferðastjórn missti sambandi við flugvélina en eftir heljarinnar leit fannst björgunarvesti í fjöru og olíubrák í sjónum.

Þessi mynd var tekin er Beechcraftflugvél Flugsýnar er hún kom í fyrsta sinn til Neskaupstaðar. Flugstjóri í þeirri ferð var Sverrir Jónsson, sem einnig var með vélina er hún týndist, og sést hann á myndinni ræða við Bjarna Þórðarson þáverandi bæjarstjóra í Neskaupstað.

Hér fyrir neðan má lesa brot úr umfjöllun Þjóðviljans um málið á sínum tíma:

Þetta er lítil tveggja hreyfla flugvél af Beechcraft gerð og var fyrsta flugvélin, sem notuð var í Norðfjarðarflugi og ber einkennisstafina TF-AIS. Beiðni hafði komið frá Neskaupstað í fyrrakvöld að sækja dreng til flutnings á sjúkrahús og hafði hann fengið stálflís í auga við sprengingarleik. Flugvélin lagði af stað kl. 18.30 frá Reykjavíkurflugvelli og flaug fyrst til Egilsstaða vegna ábendingar um slæm veðurskilyrði og tók flugvélin þar benzín til fimm klukkustunda flugs. Þegar fréttist af upprofi á Neskaupstað, þá lagði flugvélin af stað frá Egilsstöðum og mun brottfarartími þaðan hafa verið kl. 21.40 og er áætlað flug þaðan um fimmtán mínútur og stóðst sú tímasetning, þar sem flugvélin flaug yfir aðflugsvita á Norðfirði kl. 21.56. Þá var haft samband við flugmanninn kL 22.12 og bjó þá flugmaðurinn sig undir að lækka flugið til aðflugs og lendingar á vellinum. Þetta er það síðasta sem spurzt hefur til vélarinnar og gerði um þetta leyti dimmt él inn Norðfjarðarflóann. Þrautreyndir flugmenn hafa verið spurðir um líkleg viðbrögð undir svona kringumstæðum og telja þeir líklegt,að flugmaðurinn hafi tekið stefnuna til hafs og hafi átt að hækka sig í örugga lofthæð og tekið stefnuna á næstu örugga flughöfn. Eru þarna þverhníptar fjallshlíðar til beggja hliða. Erfitt er þó að leiða getum að afdrifum flugvélarinnar. Þegar flugvélin gaf sig ekki fram á nýjan leik, þá var þegar haft samband við flugradíóið á Egilsstöðum og tilkynntu þeir flugumferðarstiórn í Reykjavík um biðina og fengu þeir tilkynninguna nálega samstundis. Þeir höfðu þegar samband við Flugbjörgunarsveitina hér í Reykjavík og voru lagðir af stað með flugvél frá Flugfélagi Íslands kl. 22,53. — voru það 20 flugbjörgunarmenn undir stjórn Sigurðar Þorsteinssonar, varðstjóra cg hefur hann stjórnað leitinni fyrir austan. Þetta er talin úrvalssveit og vön klifri í fiallaklettum og flugu þeir fyrst til Egilsstaða og fóru þaðan með bílum til Neskaupstaðar yfir Oddsskarð. Um nóttina höfðu allar landsímastöðvar opið frá Þórshöfn -að norðan og allt suður að Lóni og hófst þegar viðbúnaður víða um nóttina til leitar.

Nokkrum dögum seinna birti Einherji grein um leitina að flugvélinni:

Flugvél týnist með tveim mönnum

Lítil tveggja hreyfla flugvél, frá Flugsýn, týndist aðfaranótt 18. jan. sl. Fór hún í sjúkraflug frá Reykjavík til Norðfjarðar. Veður var slæmt, og gat flugvélin ekki lent á Norðfirði. Flaug hún þá til Egilsstaða og tók benzín. Flaug síðan aftur til Norðfjarðar og ætlaði að reyna að lenda. Síðast heyrðist til vélarinnar, er hún tilkynnti, að hún ætlaði að reyna lendingu, en síðan hefur ekkert til hennar spurzt. Hafin var víðtæk leit, sem þátt tóku í margar sveitir á landi, flugvélar úr lofti og skip á sjó. Má segja, að leitað hafi verið um allt Austur-, Suður- og Norðurland, og meðfram strönd Austfjarða. Leitað var í fimm daga, en árangurslaust. Fundizt hefur björgunarvesti úr flugvélinni, rekið norðan Gerpis, og því talið víst, að flugvélin hafi hrapað í sjó á þeim slóðum.

Síðan hefur ekkert til flugvélarinnar spurst enda greipar Ægis djúpar og dimmar.

- Auglýsing -
Sverrir Jónsson og Höskuldur Þorsteinsson

Með flugvélinni voru tveir menn: Sverrir Jónsson, aðal flugstjóri Flugsýnar. Hann var kvæntur Sólveigu Þorsteinsdóttur og lét eftir sig 5 börn. Og Höskuldur Þorsteinsson, kennari flugskólans, sem lét eftir sig konu, Kristfríði Kristmarsdóttur og 5 börn.

Baksýnisspegill þessi birtist áður hjá Mannlífi þann 10. febrúar 2023.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -