Sjúkratryggingar Íslands hefur hætt greiðsluþátttöku á sykursýkislyfinu Saxenda. Lyfið er afar vinsælt enda virkar það vel gegn offitu.
Samkvæmt frétt á vef Lyfjastofnunar hefur Sjúkratryggingar Íslands ákveðið að hætta að greiða niður sykursýkislyfið Saxenda en það er oft notað gegn offitu, frá og með 1. nóvember. Ákvörðunin var tekin að undangenginni endurskoðun.
Segir í frétt Lyfjastofnunar að ákveðið hafi verið að endurskoða greiðsluþátttöku á lyfinu vegna nýrra upplýsinga frá hinum Norðurlöndunum: „Niðurstaða endurskoðunarinnar er að einstaklingsbundin greiðsluþátttaka verður afnumin fyrir lyfið Saxenda (líraglútíð) en veitt verður einstaklingsbundin greiðsluþátttaka fyrir lyfið Wegovy (semaglútíð) að uppfylltum ákveðnum skilyrðum fyrir fullorðna og unglinga.
Þrátt fyrir að skilyrðum greiðsluþátttöku verði breytt hérlendis er ekki gengið jafn langt og gert er í skilyrðum hinna Norðurlandanna. Þannig er unnt að veita einstaklingum meiri möguleika á greiðsluþátttöku fyrir Wegovy hér á landi en í viðmiðunarlöndunum.“
Samkvæmt heimildum Mannlífs frá heilbrigðisgeiranum þykja skilyrðin sem einstaklingur þarf að uppfylla til að geta greitt niður Wegovy, mjög ströng. Annað hvort þarf einstaklingur að mælast í BMI mælingu, 45 kg/m2 eða hærra samkvæmt mælingu gerð af heilbrigðisstarfsmanni í sömu viku og umsókn er send Sjúkratryggingum og vera með lífsógnandi þyngdartengdan fylgikvilla, sem ekki hefur tekist að meðhöndla með lyfjum í almennri greiðsluþátttöku, þrátt fyrir að mismunandi tegundir hafa verið reyndar í sex mánuði eða lengur. Um getur verið að ræða t.d. alvarlegan háþrýsting, sykursýki II með langtímasykri (HbA1c) > 48mmol/mol, kæfisvefn (meðal svæsinn eða svæsinn). Eða þá að mælast 35 kg/m2 eða hærra í BMI mælingu og þjást af mjög alvarlegum lífsógnandi undirliggjandi sjúkdómi sem krefjist meðhöndlunar, svo sem að sjúklingur sé á leið í líffæraskipti og þarf að léttast fyrir aðgerð, er með alvarlegan hjartasjúkdóm, eins og hjartabilun eða staðfestan kransæðasjúkdóm með þræðingu, alvarlegan lifrar- eða nýrnasjúkdóm, alvarlegan geðsjúkdóm, þar sem langtímameðferð með geðrofslyfjum hefur valdið marktækri þyngdaraukningu (>10 kg) eða vanöndun vegna offitu.
Saxenda kostar án greiðsluþátttöku Sjúkratryggingar Íslands rúmar 46.000 krónur en Wegovy um 27.000 krónur. Samkvæmt upplýsingum á vef Sjúkratrygginga var ein af ástæðum þess að ákveðið var að hætta að greiða niður Saxenda, sú að lyfin væru með svipaða virkni en Saxenda töluvert dýrari.
Offita á Íslandi hefur farið hratt vaxandi undanfarna áratugi en árið 2002 var um 12 prósent þjóðarinnar í ofþyngd en árið 2017 var um 27 prósent þjóðarinnar í yfirþyngd. Þá voru yfir 3.000 börn hér á landi með offitu árið 2021.