Á Íslandi er farið mýkri höndum um gerendur í kynferðisbrotamálum en víða í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þeir sem sakfelldir eru fyrir slík brot þurfa jafnvel ekki að sitja af sér dóma sína, heldur er skilorðsbindingu oft beitt og sakborningar ganga þar með lausir. Í Svíþjóð er til að mynda ólöglegt að skilorðsbinda dóma þar sem lágmarksrefsingin er hærri en eitt ár. Þar er lágmarksrefsing fyrir nauðgun tvö ár.
Auk þessa er málsmeðferðartími á Íslandi iðulega langur og njóta gerendur oft góðs af því við dómsuppkvaðningu. Á sama tíma hefur brotaþoli málið hangandi yfir sér með meðfylgjandi angist og óvissu. Ofan á þetta kemur að brotaþolar þurfa síðan jafnvel sjálfir að innheimta miskabætur, með tilheyrandi kostnaði og kljást þannig áfram við þann sem á þeim braut.
Nýlegur dómur í grófu nauðgunarmáli var skilorðsbundinn að fullu, bæði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og í Landsrétti. Var þetta gert jafnvel þótt sérstöku refsiþyngingarákvæði hafi verið beitt í héraðsdómi, sem einungis er gert í tilfellum stórfelldra og sérlega alvarlegra ofbeldisbrota.
Bætur til brotaþola voru lækkaðar á milli dómstiga og brotaþoli á ekki rétt á tryggingu miskabótanna úr ríkissjóði, þar sem brotið var framið á erlendri grundu.
Full skilorðsbinding þrátt fyrir þyngingu dóms
Um er að ræða mál þar sem Jón Páll Eyjólfsson, fyrrverandi leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, var sakfelldur í Landsrétti þann 3. desember fyrir gróft kynferðisbrot. Áður hafði Jón Páll verið dæmdur í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi, en áfrýjað dómnum til Landsréttar. Landsréttur þyngdi dóminn í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi en lækkaði miskabætur til brotaþola úr 2,5 milljónum króna niður í 2 milljónir króna.
Það vakti furðu margra að svo gróft ofbeldisbrot skyldi enda með dómi sem er að fullu skilorðsbundinn. Jón Páll þarf því aldrei að sitja af sér refsivist.
Því fer fjarri að þetta sé eina dæmið um mál þar sem sakfellt er fyrir gróft kynferðisbrot og dómurinn skilorðsbundinn að fullu.
Þessa grein má lesa í heild sinni í nýjasta tímariti Mannlífs. Hér má lesa vefútgáfu blaðsins en einnig má nálgast ókeypis eintak í Hagkaup, Bónus og á N1.