Skipverji kallaði í gærkvöldi eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar eftir að leki kom á bát hans á Faxaflóa, skammt frá Gróttu. Björgunarbátar í nærliggjandi bæjarfélögum voru sendir á staðinn sem og þyrla Landhelgisgæslunnar. Tók fyrstu viðbragðsaðila um 40 mínútur að mæta á svæðið. Þá hafi báturinn verið farinn að halla talsvert og sjór flætt inn. Sigmenn Landhelgisgæslunnar sóttu manninn, sem var með skerta meðvitund, í bátinn og var flogið með hann á spítala. „Björgunarskipið Jóhannes Briem og björgunarbátarnir Stefnir, Sjöfn og Fiskaklettur voru kallaðir út á fyrsta forgangi og þeir fóru þarna út að bátnum,“ sagði Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, við RÚV um málið. Dælur voru settar um borð til að dæla út sjó og á endanum tókst að þétta lekann. Báturinn var svo dreginn og var hann kominn til hafnar rétt fyrir 3 síðustu nótt.