Einstaklingurinn sem grunaður er um að hafa skotið á kyrrstæðan bíl úr fjölbýlishúsi er nú kominn út úr húsinu og hefur verið handtekinn. RÚV greinir frá þessu.
Um er að ræða fjölbýlishús í Miðvangi í Hafnarfirði. Sérsveitin fór inn í húsið í morgun og var mikill viðbúnaður á svæðinu. Leikskóla í nálægð við húsið var lokað og foreldrum barst tilkynning um að börn þeirra væru örugg inni í skólanum.
Hjá RÚV kemur fram að skotmaðurinn hafi komið út úr húsinu um tuttugu mínútur yfir tólf. Hann var þá handtekinn og færður niður á lögreglustöð. Í hádegisfréttum RÚV kom fram að formleg rannsókn málsins gæti nú hafist og að hvað úr hverju yrði dregið úr lokunum á vettvangi, en leiðir til og frá leikskólanum voru til að mynda lokaðar.
Það var eigandi bílsins sem skotið var á á bílastæði sem tilkynnti um málið í morgun. Á þriðja tug lögreglumanna kom að aðgerðunum.