Skráðum í þjóðkirkjuna fækkar og nýtt trúfélag lítur dagsins ljós.
Alls hefur skráðum í þjóðkirkjuna fækkað um 1.243 manns á tímabilinu frá 1. desember á síðasta ári til 1. nóvember. Nú eru 231.429 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna. Þetta kemur fram í grein um skráningar í trú- og lífsskoðunarfélög á vef Þjóðskrár Íslands.
Í greininni kemur einnig fram að fjölgun er mest í kaþólska söfnuðinum og í Siðmennt -félag siðrænna húmanista á Íslandi.
Á tímabilinu frá 1. desember á síðasta ári til 1. nóvember fjölgaði í kaþólska söfnuðinum um 602 manns eða um 4,3% og í Siðmennt um 526 manns eða um 18,7%. Aukning var einnig í Ásatrúarfélaginu eða um 255 manns sem er 5,8% fjölgun.
Nýtt trú- og lífsskoðunarfélag var skráð í október, það fimmtugasta sem skráð er hér á landi. Það er Demantsleið búddismans, níu einstaklingar eru skráðir í það félagið.
Þess má geta að alls voru 25.785 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga þann 1. nóvember.