Skuldir Arnars Þór Jónssonar við þá einstaklinga sem störfuðu við forsetaframboð hans munu ekki hafa áhrif kjörgengi hans til framboðs til Alþingis en þetta kemur fram í svari landskjörstjórnar til Mannlífs.
Arnar stofnaði fyrir stuttu Lýðræðisflokkinn og stefnir flokkurinn á að bjóða fram til Alþingis en kosið verður þann 30. nóvember næstkomandi. Í samtali við Mannlíf játaði Arnar að skulda starfsmönnum sem unnu að framboði hans laun. „Ætli það séu ekki tveir sem mér fannst hafa verið full brattir í að rukka mig en við erum bara að semja um það. Það er ekkert öðruvísi en það,“ sagði Arnar um skuldirnar. „Fyrst og fremst ætla ég ekki að ofborga, ég vil fá skýringar á því hvað þetta var en þetta er eitthvað sem við erum að ræða.“ Arnar fékk rúm 5% atkvæða í forsetakosningum sem fóru fram fyrr á árinu en heimildir Mannlífs herma að um fleiri en tvo einstaklinga sé að ræða.
Arnar hinn óflekkaði
Í svari landskjörstjórnar kemur fram að allir sem hafa óflekkað mannorð og hafi kosningarétt hafi kjörgengi. „Þeir sem hafa flekkað mannorð eru skilgreindir í 3. mgr. 6. gr., þ.e. að hafa framið refsivert brot og refsing er óskilorðsbundið fangelsi, frá þeim degi sem dómur er upp kveðinn og þar til afplánun er að fullu lokið,“ sagði í svari landskjörstjórnar um málið. Arnar hefur áður verið varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn en taldi sér ekki stætt þar lengur.
Lýðræðisflokkurinn er einn af tíu flokkum sem stefna á framboð til Alþingis en nokkuð ljóst að á brattann er að sækja fyrir flokkinn enda stutt til kosninga.