Skúli Margeir Óskarsson, fyrrum íþróttamaður ársins, er látinn. Hann var 75 ára gamall en Mbl.is greinir frá andláti hans. Skúli fæddist árið 1948 og ólst upp á Fáskrúðsfirði en flutti síðar á höfuðborgarsvæðið. Skúli hóf að keppa í lyftingum árið 1970 og setti mörg Íslandsmet á lífsleiðinni í íþróttinni. Skúli náði þeim merka árangri að lenda í öðru sæti á heimsmeistaramótinu árið 1978 og setti svo heimsmet í réttstöðulyftu í sínum þyngdarflokki árið 1980. Skúli var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2017 og var kosinn Íþróttamaður ársins árin 1978 og 1980. Skúli lætur eftir sig eiginkonu, dóttur, tvær stjúpdætur og átta barnabörn.