Skúli Magnússon, Umboðsmaður Alþingis, hefur verið skipaður sem dómari við Hæstarétt en hann tekur við Ingveldi Einarsdóttur sem hættir vegna aldurs í ágúst. Hún er jafnframt varaforseti réttarins. Fjögur sóttu um embættið en auk Skúla sóttust þau Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari, Eyvindur G. Gunnarsson prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands og Ingibjörg Þorsteinsdóttir dómsstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur eftir embættinu. Skúli var metinn hæfastur af dómnefnd en þar á eftir kom Aðalsteinn. Dómnefndina skipuðu Sigurður Tómas Magnússon, formaður, Andri Árnason, Helga Melkorka Óttarsdóttir, Reimar Pétursson og Þorgeir Örlygsson. Skúli tekur við embættinu 1. ágúst næstkomandi.