Þann 11. október gengu ráðamenn landsins, þingmenn, ráðherrar, biskup og forsetahjónin fylktu liði frá Dómkirkjunni í sínu fínasta pússi en verið var að setja þingið. Virðulegir lögregluþjónar stóðu heiðursvörð við Alþingi. Allt í einu birtist eldri karlmaður í gæruúlpu og með sérsaumaða gúmmíhanska og fötu í hendi. Í fötunni var skyr. Hljóp hann sem harðast í átt að ráðamönnum þjóðarinnar og tók að jósa úr fötunni yfir mannskapinn. Áður en yfir var staðið höfðu alls um 20 manns fengið yfir sig skyrskvettu, þar með talin forsetahjónin og biskupinn. Árið var 1972 og maðurinn sem átti skyrið og skvetti, hét Helgi Hóseasson.
Tíminn skrifaði frétt um atburðinn á sínum tíma en hér fyrir neðan má lesa þá frétt og sjá ljósmyndir af atganginum:
„Grípið manninn, grípið manninn!“
var hrópað, þegar herfjöturinn raknaði af stjörfum heioursverðinum
Þeir sletta skyrinu, sem eiga — það sannaðist við þingsetninguna í gær. Þegar ráðherrar og þingmenn með forsetahjónin og biskup landsins, í brjósti fylkingar, voru á leið milli kirkju og þingsins að lokinni þingmessu, hljóp fram maður með fötu í hendi og jós úr henni skyrblöndu, að menn ætla, yfir þá sem fremstir fóru. Þannig hélt hann síðan áfram aftur með fylkingunni, unz hann hafði náð að skvetta á tuttugu menn, eða þar yfir. Aldrei hefur neitt þessu líkt gerzt fyrr við þingsetningu. Aftur á móti minnir þetta mjög á það atvik, er stúlkan skvetti bleki á Heath, forsætisrá&herra Breta, í Brussel fyrr á þessu ári. Maður sá, sem þarna var að verki, var Helgi Hóseasson húsasmiðameistari, sem oftsinnis hefur brugðið fyrir sig ýmsu harla óvenjulegu sökum þess, að hann hefur ekki fengið ógiltan skírnarsáttmála sinn á lögformlegan hátt.
Viðhöfn, sem rauk út i veður og vind
Eins og áður segir var þingmessa úti. Forseti og biskup gengu fremstir, eins og venja er
til við slíka athöfn, og voru komnir nokkur skref upp á gangstéttina við horn þinghússins. Næstir á eftir þeim gengu forsetafrúin og presturinn, sem predikaði við þingsetningu, séra Guðmundur Þorsteinsson, þá forsætisráðherra og forseti Sameinaðs þings, síðan ráðherrar tveir og tveir og loks þingmenn hver af öðrum, einnig tveir og tveir hlið við hlið. Tólf manna heiðursvörður lögregluþjóna hafði skipað sér i röð á miðju Kirkjustræti með fingur hægri handar til húfuskyggni og var vestastur fánaberi, en beint fyrir framan hann stóð fyrirliði
heiðursvarðarins, Sigurður M. Þorsteinsson, hinn þrettándi í sveitinni, sem á næst á gangbrautinni, er þarna er yfir Kirkjustræti. Tveir lögregluþjónar stóðu við þinghúsdyr og
tveir við kirkjudyr, og auk þess voru nokkrir fleiri fjær við umferðarstjórn og eftirlit.
Óvænt atlaga aðvífandi manns
Skyndilega kom Helgi Hóseasson aðvífandi utan af Austurvelli með dall i hendi. Hann var í gæruúlpu og með gúmvettlingana, og hafði hann saumað pjötlu i lófa hægri handar, svo að hann gæti notað hana eins og ausu. Hann hljóp undir fánann, sem fánaberinn hélt hátt á loft, fram fyrir fyrirliðann og upp að gangstéttinni. Jós hann umsvifalaust úr dalli sínum á forseta og biskup og síðan á hvern af öðrum aftur eftir fylkingunni. Þetta gerðist allt mjög óvænt, og brugðust menn við á ýmsa vegu. Riðlaðist talsvert gangan, þvi að sumir, sem ráðrúm fengu til þess, reyndu að vikja sér undan, en aðrir héldu ótrauðir áfram, og varð ekki séð, að þeim brygði að ráði eða fataðist. Á sumum brá jafnvel fyrir brosi. Þeir, sem ekki voru komnir út á götuna, staðnæmdust i kirkjudyrum, og biðu þar átekta.
Allt í einu áttuðu þeir sig
Heiðursvörðurinn stóð í fyrstu sem stjarfur með hönd á húfu meðan Helgi hljóp með fylkingunni og jós á hana. Loks var eins og hnútur raknaði, og einn lögregluþjónanna, Þórir Þorsteinsson, kunnur íþróttamaður, hljóp fram, og á eftir fylgdu fleiri. Í næstu andrá hrópaði fyrirliðinn: „Gripið manninn! Gripið manninn!“ Og aðrir tóku undir. „Þeir, sem austastir stóðu, stukku á hann aftan frá“, sagði Guðmundur Hermannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, er Tíminn ræddi við hann eftir atburðinn. „Við það byltist hann á
grúfu á götuna“. Þá helltust leifarnar úr dallinum á götuna.
Varð fyrst fyrir að verka sig
Föt margra þingmanna voru illa leikin, er þeir komu inn i þinghúsið, því að allir þeir, sem
fremstir fóru, höfðu eitthvað fengið á sig úr dalli Helga. Gilti það jafnt um forsetahjónin, biskup, og prest, ráðherra og þingforseta. Meðal þingmanna, sem glöggt mátti sjá, að fyrir þessu urðu, voru Gunnar Thoroddsen, Magnús Jónsson, Björn Jónsson, Jón Skaftason, Þórarinn Þórarinsson, Matthias Matthiesen, Gils Guðmundsson, Oddur Ólafsson og Matthias Bjarnason. Varð nokkur töf á þingsetningu, því að öllum varð fyrst fyrir að verka sig til bráðabirgða. Engin tök voru þó á að afmá sletturnar í skyndi, og varð við svo búið að sitja. Aldursforseti þingsins, Hannibal Valdimarsson, var meðal þeirra, sem verst höfðu orðið úti, og hvar hann næsta illa til reika, er hann tók við fundarstjórn að lokinni setningarræðu
forsetans. En sumir, sem í salnum sátu, höfðu litlu betur sloppið.
„Virðist vera dasaður“
Helgi Hóseasson var fluttur í fangaklefa i nýju lögreglustöðinni við Hverfisgötu. „Hann er mjög miður sin, virðist vera dasaður“, sagði Guðmundur Hermannsson. Hann sagði, að málinu yrði visað til rannsóknarlögreglunnar. Magnús Eggertsson, yfirlögregluþjónn í rannsóknarlögreglunni, sagði blaðinu i gærkvöldi að yfirheyrslur færu ekki fram fyrr
en í dag. Búizt er við að Helgi verði látinn sæta geðrannsókn.
Helgi Hóseasson var í kjölfarið nauðungarvistaður á Kleppi en geðlæknir hans sagði í skýrslu sinni um hann að hann teldi Helga ekki geðveikan en mögulega haldinn kverúlant-paranoju, byggi við sérviskulega heimsmynd og notaði sérkennilegt orðfæri. Skýrlan átti að vera trúnaðarmál en Helgi stal henni, fjölritaði og seldi gegn vægu verði á Lækjargötu. Aðspurður um það á Útvarpi Sögu árið 2007, af hverju hann hafi slett skyri en ekki einhverju öðru, kvaðst hann ekki hafa viljað skaða augu ráðamanna með því að sletta sýru eða einhverju álíka yfir þá.
Baksýnisspegill þessi birtist fyrst þann 25 mars, 2022.