Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Skýrslan um Laugalandsbörnin fjarlægð: „Augljós tilraun til að sópa öllu aftur undir teppið“ 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skýrsla sem unnin var af Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sem lýsti hrottalegri framkomu forstöðumanna í garð barna sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Laugalandi, hefur verið fjarlægð. Í svari starfsmanns Gæða- og eftirlitsstofnunar segir að ákveðið hafi verið að fjarlægja skýrsluna í desember á síðasta ári, eftir úrskurð Persónuverndar, í kjölfar kvartana frá forstöðumönnum heimilisins. 

Stúlkurnar á Laugalandi

Í janúar 2021 tók tugur kvenna, sem dvaldi á meðferðarheimilinu Laugalandi, höndum saman og fór fram á að farið yrði ofan í saumana á starfsemi heimilisins. Þær lýstu erfiðri og sársaukafullri dvöl og töldu að frásögnum þeirra hafi verið sópað undir teppi af hálfu barnaverndaryfirvalda.

Ásmundur Daði Einarsson ráðherra fól Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) „að kanna hvort og þá í hvaða mæli börn, sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997 til 2007, hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi meðan á dvöl þeirra stóð“. Nefnd, skipuð fjórum sérfræðingum með þekkingu á rannsóknum, barnavernd og áföllum vann að úttektinni og skilaði skýrslu um meðferðarstarfið að Laugalandi.

Í kjölfarið lýstu þær ánægju við upplifunina að loks hefði verið á þær hlustað.

Úrskurður Persónuverndar

- Auglýsing -

Fram kemur í úrskurðinum að kvartendur, sem voru forstöðumenn heimilisins, byggi á að engin heimild hafi staðið til rannsóknar eða birtingar greinargerðar um meðferðarheimlið. Þá vísi kvartendur til þess að enda þótt þau hafi ekki verið nafngreind í greinargerðinni sé einfalt að finna nöfn þeirra sem ráku meðferðarheimilið. Þess auki finnist kvartendum vinnslan hvorki hafa verið sanngjörn eða gagnsæ.

 Úrskurður Persónuverndar bendir á að lögum hafi ekki verið fylgt er varða persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga né heldur að birting hennar hafi samrýmst lögum. Þess auki er lagt bann á frekari notkun og dreifingu greinargerðarinnar: 

„Vinnsla Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á persónuupplýsingum, í þágu rannsóknar á meðferðarheimilinu [X], samrýmdist ekki ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

- Auglýsing -

Birting Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á greinargerð um meðferðarheimilið [X] samrýmdist ekki ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Lagt er fyrir Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála að fjarlægja greinargerð um meðferðarheimilið [X] af vefsíðu sinni. Staðfesting á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum skal berast Persónuvernd eigi síðar en 15. janúar 2024. Jafnframt leggur Persónuvernd bann við frekari notkun og dreifingu greinargerðarinnar.“

Úrskurðinn má lesa í heild hér

Viðbrögð stúlknanna

Í samtali við Mannlíf kemur fram að stúlkurnar eru margar mjög ósáttar við úrskurðinn. Ein þeirra segir: 

„Þetta er fáránlegt alveg hreint! Fyrst að það er alveg eins hægt að rekja hverjir kvartendur eru, því það sagt er að það eru forstöðumenn heimilis, sem fjöldi kvenna hafi kvartað undan. 

Svo það að mér finnst þetta blátt áfram augljós tilraun til að sópa öllu aftur undir teppið og þagga niður í okkur og rengja bæði okkur og skýrsluna. 

Þá var ekki haft samband við okkur né okkur tjáð að þetta væri í gangi. Ég er brjáluð!“

Aðspurð um viðbrögð vegna úrskurðsins segir önnur:

Ég er í sjokki!

 „Af hverju eru aðrar skýrslur inni en ekki þessi? Það er eitthvað sem „hann“ [innsk.blm. Ingjaldur] held ég er að fela! Eða í einhverri algjörri afneitun með að þetta hafi verið svona. Samt eru þau ekki nafngreind. En margar af þessum stelpum komu fram nafngreindar í fjölmiðla.“ 

Skýrslan kastaði ljósi á ógnarstjórnun og ofbeldi

Ingjaldur Arnþórsson rak meðferðarheimili að Laugalandi ásamt konu sinni, Áslaugu Brynjarsdóttur. Þau bjuggu þar ásamt tveimur börnum sínum og skjólstæðingum, sem fyrst voru sex en fjölgaði með yfir árin í átta. Bragi Guðbrandsson var þáverandi eftirlitsmaður heimilisins á vegum Barnaverndarstofa Reykjavíkur.

Allir helstu fjölmiðlar fjölluðu um mál stúlknanna og skýrsluna og vakti málið mikla athygli hjá þjóðinni. Rætt var við 34 einstaklinga sem dvöldu í vist á heimilinu og náðu lýsingar þeirra yfir andlegt og líkamlegt ofbeldi, svo sem ógnarstjórnun og harðræði. Hún var opinberuð 2022 og þann 14. September sama ár gaf Stjórnarráðið út fréttatilkynningu sem í segir:

„Greinargerðin fer ítarlega yfir starfsemi meðferðarheimilisins á tímabilinu. Birtingin snertir fjölda einstaklinga, einkum þau sem dvöldu á heimilinu og býðst þeim stuðningur í Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Hægt er að hafa samband við Bjarkarhlíð í síma 553-3000. Enn fremur mun Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála bjóða hlutaðeigandi samtal um niðurstöðurnar.“

Í skýrslunni kom fram að mikill meirihluti fyrrum vistbarna segist hafa upplifað andlegt ofbeldi, einu sinni eða oftar á meðferðartímanum, eða 30 af 34 einstaklingum. Voru þessar frásagnir oftast af óttastjórnun, harðræði eða niðurbroti, aðallega af hendi forstöðumanns en einnig forstöðukonu. Margir viðmælendur sögðu frá fleiri atvikum en einu. Samtals 27 úr viðmælendahópnum greindu frá atvikum sem fela í sér einhvers konar óttastjórnun eða harðræði af hendi forstöðuaðila.

Alls 20 vistbörn af 34 töluðu um móttökurnar þegar þau komu fyrst á Laugaland og 12 lýstu neikvæðri upplifun. Alls 14 vistbörn af 34 sögðust hafa verið beitt líkamlegu ofbeldi. Í frásögnum 12 þeirra er forstöðumaðurinn tilgreindur gerandi, en tvær stúlkur tilgreina forstöðukonuna. Til viðbótar sögðust 11 hafa orðið vitni að því að líkamlegu ofbeldi hafi verið beitt af hálfu forstöðumanns.

Alls 10 vistbörn af 34 kvörtuðu yfir að símtöl hafi verið hleruð, sem hafi gert það að verkum að þau hafi ekki geta talað eins frjálslega og þau hefðu viljað. Alls 13 vistbörn af 34 töluðu um að hafa upplifað reglur um fatnað og eigur á neikvæðan hátt og jafnframt að hafa ekki mátt hlusta á þá tónlist sem þau vildu. Þá hafi verið gerðar athugasemdir við útlit þeirra og ein stúlka lýsir því að hafa þurft að láta klippa og aflita á sér hárið gegn vilja sínum.

Alls 9 vistbörn af 34 sögðust hafa reynt að kvarta á einhverjum tímapunkti við barnaverndarstarfsmann eða Barnaverndarstofu og upplifðu að það hefði engu breytt.

Tengd frétt: 

Játningar læknis að Laugalandi: „Hitti grátandi unga stúlku sem hafði áverka á enni“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -