Verðmunur á Íslandi annars vegar og Tenerife hins vegar hefur nokkuð verið til umræðu undanfarið. Reynsla margra er að á eyjunni fögru sé næstum ekkert dýrara en hér. Anna Kristjánsdóttir hefur verið búsett þar fyrir sunnan um nokkurt skeið og hún segir fólk ekki skilja hvers vegna hún sé ekki fulla alla daga, alla daga. Einföld ástæða sé fyrir því, þar er tekið hart á ölvunarakstri.
Anna segist á Facebook hafa lent í okri á Tenerife. Það var þó hlægilega léttvægt miðað við að fara á kaffihús í Vesturbænum. „Mbl.is birti í gær mun á verðlagi á ýmsum vörum á Tenerife og Íslandi og ég fór að skoða tölurnar betur, allavega þær tölur sem ég þekki persónulega. Margt virðist vera rétt, en þó ekki alltaf og erfitt að alhæfa um einstöku tölur og vissulega kostar hálfslítra bjórglasið tvær evrur á Þarnæstabar (The Buccaneer) eins og nefnt er í samanburðinum,“ segir Anna á Facebook.
Hún segir að það sé helst okrað á Tenerife með því að rugla í magni bjórsins, pint reynist 0,4 lítrar. „Sumsstaðar er auglýst að einn pæntari af bjór á krana kosti allt niður í 0,9 evrur, en þá kemur spurningin, hvað er pæntari eða 1 pint? Ef breskur pæntari er skoðaður er hann 568 millilítrar en amerískur pæntari 473 millilítrar. Einu sinni lét ég glepjast af þessu fína tilboði niðri á strönd og fékk mér einn pæntara á 0,9 evrur. Kannan sem ég fékk bjórinn afgreiddan í var með magnmerki hvar á stóð 0,4 l(ítrar). Allt í góðu með það. Verðið samt miklu lægra en meðalverðið. Ef ég svo álpast út til Del Duque í Adeje hækkar verðið verulega, en af því að ég vil ekki láta okra á mér sleppi ég því að fara þangað þótt ég sé snobbhænsni dauðans,“ segir Anna.
Hún ber þetta svo saman við okrið í Vesturbænum, og raunar Reykjavíkur í heild sinni. „Maður sem ég þekki leit inn á kaffihús í vesturbæ Reykjavíkur um daginn og blöskraði verðlagið, sneið af súkkulaðiköku á 1590 krónur og bjór af krana 1400 krónur. Hann vildi meina að það væri lítill bjór, en mér sýndist samt af myndinni sem að bjórinn hafi verið af þessari nýju mælingu sem er 0,4 lítrar. Sjálf hefi ég ekki fengið mér bjór á veitingastað í Reykjavík í nokkur ár, en fróðlegt væri samt ef einhver hefur efni á að gera samanburð á verðlagi á börum á Íslandi úr því eitthvert kaffihús í vesturbæ Reykjavíkur selur bjór af krana á 1400 krónur, þá sennilega 40 cl,“ segir Anna.
Hún segir kók oft dýrara en bjór á Tenerife. „Sjálf ætla ég að halda mig við Þarnæstabar enn um sinn og kaupa minn bjór sem er 50 cl á 2 evrur eða þá á húsbarnum á 1,8 evrur. Til skemmtunar má geta þess að CokaCola er mun dýrara hér en bjór eða eins og sagði í Spánarljóði Sigurðar Þórarinssonar:
“Þar kostar álíka kláravínið
og kranablávatnið okkur hjá.”
Varðandi hvítvínið, þá er ég dálítið snobbuð í þeim efnum og drekk helst Diamante sem er millisætt og kostar heilar 3,99 evrur í Mercadona, en 3,95 í HyperDino. Ég get svo alveg fengið ódýr vín á 2 evrur.“
Anna segist oft spurð hvort hví hún sé þá ekki sífellt að staupa í sig, fyrst það sé svona ódýrt. „Svo skilur fólk ekkert í því að ég skuli ekki vera full allan daginn alla daga. Ástæðan er einföld. Hér er bannað að aka undir áhrifum að viðlagðri ökuleyfissviptingu og háum sektum. Öðru ber einnig að fagna. Það er 500 evru sekt fyrir að aka á rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis, en 1000 evru sekt ef viðkomandi er kominn yfir efri mörkin. Ég hefi svo ekki hugmynd um hvar neðri eða efri mörkin liggja sem gerir að sjálfsögðu ekkert til fyrir mig sem fer eftir gullvægu reglunni. Eftir einn, ei drekki neinn.
Lilja systir er í fýlu út í mig. Ég vildi ekki keyra strákinn hennar á flugvöllinn eftir að ég var búin að fá mér hálfsexara eða eitt hvítvínsglas fyrir matinn.“