Tveir ungir menn hafa ítrekað gert árásir á karlkyns nemendur Fjölbrautaskólans í Breiðholti en þeir eru sjálfir nemendur við annan skóla. Sérsveitin hefur verið kölluð til í eitt skipti. Lögreglan hefur haft hendur í hári annars þeirra.
„Málið er upplýst,“ segir Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti. „Um er að ræða nemendur sem eru utan skóla, það er að segja ekki í skólanum. Þetta eru aðallega tveir nemendur sem hafa veist að nemendum okkar í nokkur skipti. Við höfum kallað til lögreglu og hún er komin inn í málið og tók annan þeirra úr umferð. Þetta eru ungir einstaklingar. Lögreglan er á höttunum á eftir hinum.“ Sagðist Guðrún ætla að skrifa bréf til að senda á foreldra nemenda við skólann, til að halda þeim upplýstum.
Mannlíf hefur undir höndum myndskeið þar sem sjá má hópslagsmál en þar virðast nokkrir einstaklingar ráðast á tvo. Aðspurð um myndskeiðið segist Guðrún ekki geta svarað til um það en „það voru allavega tveir sem urðu fyrir árás á miðvikudaginn og svo gerðist aftur eitthvað í gær. Og lögreglan fór á fullt í gær og lét okkur vita að þeir væru búnir að taka allavega annan þeirra alveg úr umferð.“
Guðrún segir að nemendum hafi ekki verið boðin áfallahjálp. „Nei, við höfum nú ekki gert það en við ætlum núna að senda tölvupóst á nemendur, við erum með mjög mikla nálægð við nemendur, almennt séð. Við bjóðum þeim að koma til námsráðgjafa ef þau þurfa.“
Móðir stúlku sem stundar nám við skólann sagði í samtali við Mannlíf að hún óttaðist um öryggi dóttur sinnar. Aðspurð hvort hún teldi stúlkum stafaði hætta af drengjunum sagðist Guðrún ekki halda það. „Nei, ég held að það sé ekki. Þeir sem hafa orðið fyrir árásum eru drengir. Það er samt alveg eðlilegt að fólki líði illa yfir þessum fréttum.“
Myndskeiðið af slagsmálum við skólann má sjá hér að neðan en viðkvæmir eru varaðir við.