Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst nokkuð furðuleg tilkynning rétt eftir miðnætti í nótt. Hringjandinn sagði nokkra menn vera að slást utandyra í Kórahverfinu í Kópavogi og það berir að ofan með boxhanska. Þegar lögreglu bar að reyndust þetta vera upprennandi hnefaleikakappar að æfa sig. Var þeim kurteisislega bent á að þetta væri mögulega ekki besti tíminn til slíkra æfinga. Kemur þetta fram í dagbók lögreglunnar.
Þar segir einnig að tíu ökumenn hafi verið sektaðir fyrir að aka á göngugötu á Austurstræti en frá 1. júlí til 1. október er Austurstræti frá Pósthússtræti að Ingólfstorgi göngugata. Þá er aukreitis Veltusund og Vallarstræti vestan Veltusunds göngugata en það var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 19. júní.
„Lögregla vill því að gefnu tilefni minna á að akstur á göngugötum er eðli málsins samkvæmt með öllu óheimill nema undanþágur séu í gildi svo til vegna vörulosana eða að ökumaður sé handhafi stæðiskorts hreyfihamlaðra,“ segir í dagbókinni.
Að öðru leiti var nóttin nokkuð róleg.