Kona á fimmtugsaldri varð fyrir líkamsárás að kvöldi 21. september 2017 á Hagamel 18. Hún varð úrskurðuð látin þegar hún var komin á Landspítalann. Tveir karlmenn voru handteknir á vettvangi, annar var erlendur ríkisborgari á fertugsaldri og var hann gestkomandi, en hinn var Íslendingur á þrítugsaldri og búsettur í húsinu. Konan sem lést bjó einnig í húsinu.
Maðurinn var hælisleitandi frá Jemen en konan frá Lettlandi. Maðurinn, Khaled Cairo, hafði slegið hana með glerflöskum og slökkvitæki. Hann kvaðst vera ósáttur að hún hafi verið í tygjum við blökkumann. Cairo hegðaði sér undarlega í samskiptum við lögreglu og í dómssal, en var ekki metinn ósakhæfur eða siðblindur og var dæmdur í 16 ára fangelsi.
Sló hana í höfuðið með 10 kílóa þungu slökkvitæki
Konan var 44 ára gömul og frá Lettlandi. Hún lét eftir sig þrjú börn og foreldra. Khaled var gefið að sök að hafa slegið hana með glerflöskum í höfuð og andlit, slegið hana í höfuðið með tíu kílóa þungu slökkvitæki og þrengt kröftuglega að hálsi hennar.
Khaled var í héraði dæmdur til að greiða hverju og einu þriggja barna konunnar þrjár milljónir króna í bætur og foreldrum hennar 1,6 milljónir króna hvoru um sig. Lögmaður aðstandenda hennar fór fram á að bætur foreldranna yrðu hækkaðar til jafns við börnin. Fór svo að bæturnar voru staðfestar í Landsrétti.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Khaled, krafðist sýknu fyrir dómi eða ellegar að dómurinn yrði mildaður. Það hefði ekki verið ætlan Khaled að myrða konuna heldur hefði hann tryllst á staðnum að því er fram kom í fréttum RÚV við meðferð málsins í Landsrétti.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og saksóknari í málinu, sagði það fráleitt að halda því fram að ofsafengin og kvalafull árás Khaled hefði ekki verið tilraun til manndráps. Hann krafðist staðfestingu dómsins sem varð raunin.
Síðar kom fram í máli Vilhjálms, verjanda Khaleds, við dómsuppsöguna að Khaled uni dómnum og að ekki yrði óskað eftir áfrýjunarleyfi til Hæstarétts.
Hláturinn varnarviðbrögð frekar en geðrof
Tveir geðlæknar báru vitni fyrir dómi og lýstu þeir því báðir að Khaled Cairo væri sakhæfur. Annar geðlæknirinn taldi líklegt að hlátur Cairo við skýrslutöku væri varnarviðbrögð frekar en geðrof eða eitthvað slíkt.
Nanna Briem lýsti því að hún og annar geðlæknir hefðu átt þrjú samtöl við Cairo á Litla-Hrauni. „Niðurstaða okkar er sú að Khaled Cairo er sakhæfur,“ sagði Nanna fyrir dómi.
Hún sagði að þau hefðu ekki séð mikil merki um iðrun og samkennd hjá honum og að hann væri viðkvæmur fyrir höfnun.
Sló hana tveimur höggum áður en hann missti stjórn á sér
Nanna lýsti því hvernig Cairo útskýrði fyrir henni hans hlið frá kvöldinu þegar konan lést. „Áður en hann missti alveg stjórn á sér sló hann hana tvisvar. Hvort högg um sig var fyrir þá menn sem hún var í sambandi við og höggin voru í refsingaskyni. Þegar vitnið birtist í dyragættinni missti hann endanlega stjórn á sér,“ sagði Nanna þegar hún lýsti því sem Cairo sagði.
Spurð hvort hann hefði verið reiður vegna þess að maðurinn sem birtist í dyragættinni er svartur sagðist hún eiga erfitt með að dæma það út frá samtölum þeirra. Hins vegar var ljóst að hann var verulega ósáttur.
Mikil reiði og afbrýðissemi
Sigurður Páll Pálsson geðlæknir hitti ákærða fimm sinnum. Sigurður sagði fyrir dómi að honum fyndist ákærði hreinn og beinn og geðskoðun hans hefði verið eðlileg. Ákærði hefði þó verið svolítið ör og hann hefði sjálfur lýst mikilli reiði og afbrýðissemi sem gerði hann nánast ómannlegan.
„Mitt mat er að hann er sakhæfur,“ sagði Sigurður.
„Hann var ósáttur við að hún hafi verið í sambandi við aðra menn og hann upplifði þetta sem samband af sinni hálfu. Hann sagði að þau hefðu einu sinni sofið saman og eftir það væri þetta mest á netinu,“ sagði Sigurður þegar hann lýsti því sem Cairo ræddi við hann.
Hann sagði, líkt og Nanna, að Cairo hefði orðið gríðarlega reiður og misst stjórn á sér undir áhrifum áfengis kvöldið þegar konan var myrt. „Hann kennir henni um að hann missti sig,“ sagði Sigurður.
Líklega manndráp
Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur framkvæmdi krufningu á konunni. Hann sagði dánarorsök blóðleysi til höfuðs sökum höfuðhögga en auk þess mætti finna áverka á hálsi eftir kyrkingar og það gæti verið meðvirkur þáttur.
Hann sýndi fjölda mynda þar sem mátti sjá áverka sem konan varð fyrir kvöldið sem hún lést. Hann sagði nokkuð ljóst að andlátið hefði borið að með óeðlilegum hætti og líklega væri um manndráp að ræða.
Sagði Ísland öruggasta land í heimi
Elsta dóttir hennar ræddi við Morgunblaðið árið 2017 um sorgina og þakklætið í garð allra sem aðstoðuðu fjölskylduna á erfiðum tímum.
Líf lettneskrar fjölskyldu umturnaðist á örskotsstundu þegar morð var framið í Vesturbæ Reykjavíkur í lok september. Konan var myrt á hrottalegan hátt í landi sem hún hafði sagt börnum sínum að væri það öruggasta í heimi.
„Við fengum fréttirnar á mjög harkalegan hátt. Lögreglan kom heim til ömmu minnar og afa og afhenti þeim orðsendingu frá sendiráði Lettlands í Osló um að móðir mín hefði látist og að um einhvers konar glæp væri að ræða.
Ekkert meira, engar útskýringar, ekkert. Amma hringdi og færði okkur fréttirnar.“
Biðu heila helgi eftir frekari fréttum
Áfallið var skiljanlega yfirþyrmandi og spurningarnar margar.
„Í orðsendingunni var símanúmer hjá lögreglunni á Íslandi þannig að næsta dag hringdum við í það númer. Ég var í algjöru sjokki og afneitun. Veröldin hrundi enda höfðum við átt von á henni hingað heim tveimur dögum síðar. Við hringdum í lögregluna á Íslandi strax daginn eftir og okkur var sagt að rannsakandi myndi hringja í okkur til baka eins fljótt og hægt væri.
Þetta var á föstudegi en svo heyrðum við ekkert í lögreglunni fyrr en í vikunni á eftir, þremur eða fjórum dögum eftir að við fengum fréttirnar fyrst,“ segir dóttirin.
Sú bið tók verulega á fjölskylduna. „Þetta var ólýsanlegur sársauki og reiði sem helltist yfir okkur þessa daga. Það voru allir í áfalli og við vissum ekkert.“
Þegar lögreglan hafði samband gat hún ekki sagt margt, en tjáði þeim að frekari upplýsingar fengju þau þegar þau kæmu til landsins.
Erfið Íslandsför
Dóttir konunnar segir ferðina hingað til Íslands hafa tekið á þau öll en er þakklát fyrir aðstoðina sem þau fengu.
„Við vorum fjögur sem komum til Íslands. Ég, systir mín, unnusti minn og ein vinkona mömmu. Ferðin var auðvitað ekki ánægjuleg en við vissum það fyrirfram og gerðum okkar besta til að höndla þetta.
Það var mjög erfitt að undirbúa okkur fyrir jarðarförina, velja kjólinn á hana, uppáhaldslagið hennar og tala við prestinn. En það var ótrúlega mikið af hjálplegu fólki í kringum okkur. Jarðarförin var skipulögð af lettneskum konum sem búa hér á landi og vinnufélagar mömmu á Swan hótel skipulögðu erfidrykkjuna.
Það var ótrúlegt hvað fólk var tilbúið að gera mikið fyrir okkur. Þetta var í raun stórkostlegt en átakanlegt á sama tíma.“
Ætlaði sér að búa hér áfram og læra íslensku
Konan kom fyrst til Íslands og vann úti á landi við ferðaþjónustu. Frá því í febrúar sama ár og hún var myrt hafði hún starfað við þrif á íbúðahóteli í miðbæ Reykjavíkur og eins og fram hefur komið var hún ákaflega vel liðin meðal vinnufélaga og undi hag sínum vel hér á landi. Hún sagði börnum sínum oft frá Íslandi og hversu vel henni líkaði að vera hér.
„Mamma elskaði Ísland, hún elskaði fólkið hér og hún ætlaði sér að vera hér áfram, læra tungumálið og vildi geta aðlagast þjóðfélaginu enn betur og þroskast hér sem einstaklingur. Hún sagði okkur að Ísland væri öruggasti staður á jörðinni. Þvílík kaldhæðni,“ segir dóttir konunnar.
„Hún vildi líka að Ketija systir mín kæmi til Íslands til að stunda háskólanám og var búin að bjóða henni að koma.“
„Hún var besta vinkona mín“
Sorgin var yfirþyrmandi og fjölskyldan reyndi að takast á við hana í sameiningu að sögn dótturinnar.
„Þetta er ennþá mjög erfitt, bæði að takast á við sorgina og að sætta sig við að þetta hafi gerst. Ég er sjálf að vinna með sálfræðingi í að læra að lifa með þessu atviki. Ég reyni að vera sterk og halda áfram, en margt hefur breyst eftir að hún fór og framtíðin lítur öðruvísi út. Hún var besta vinkona mín.
Systir mín og bróðir gera líka sitt besta til að lifa með þessu en það er mjög erfitt og við munum öll þurfa langan tíma til að ná okkur.
En ég er mjög stolt af yngri systkinum mínum því þrátt fyrir þennan harmleik þá eru þau mjög sterk og halda áfram að lifa lífinu.“
Söfnun sem sett var af stað hér á landi fyrir fjölskyldu fórnalambsins gekk mjög vel og margir, meðal annars forseti Íslands, létu fé af hendi rakna til að styðja við fjölskylduna og mæta kostnaði við útför hér á landi og annað tilfallandi. Söfnunin var gífurlega mikilvæg fyrir þau að sögn réttargæslumanns þeirra og segir hann þau hvarvetna hafa mætt góðu viðmóti og miklum skilningi á erfiðri stöðu.
Heimildir:
Auður Ösp. 18. apríl 2018. Khaled öskraði þegar fangelsisdómur var kveðinn upp. DV.
Dóms- og lögreglumál. 8. janúar 2019. Kvalafull árás sem gæti aðeins leitt til dauða. RÚV.
Eyrún Magnúsdóttir. 5. nóvember 2017. Sagði Ísland öruggasta land í heimi. Morgunblaðið.
Innlent. 21. mars 2018. Telja Cairo sakhæfan. MBL.
Kolbeinn Tumi Daðason. 18. janúar 2019. Sextán ára fangelsi fyrir morðið á Hagamel. Vísir.