Nokkuð mikið var að gera hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins undanfarin sólarhring samkvæmt færslu sem það setti inn á samfélagsmiðla í morgun. Alls voru sjúkrabílar kallaðir út 116 sinnum og sinnti næturvaktin 42 af þeim útköllum. „Hálkuslys, brjóstverkir, krampar, fólk að slást og slasa hvort annað, fæðingaflutningur, kviðverkir og svo margt annað var meðal þess sem við sinntum í nótt.“ Þá voru dælubílar kallaðir út sex sinnum og í eitt skipti af öllum stöðvum en þá var tilkynnt um eld í húsi en sem betur fer var það ekki svo og ein stöð kláraði reykræstingu. Slökkvilið lét svo fylgja með mynd af verkefni þar sem þurfti að aðstoða heimiliseigendur á Drafnarstíg að ná brotnu loftneti niður en talið var að það skapaði hættu.