Edda Falak, eigandi og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur, segir viðtalið sem hún tók við Vítalíu Lazarevu ekki hafa verið ætlað til þess að taka menn niður. „Þetta snerist frekar um að opna á viðbjóðinn sem hún upplifði.“
Þótt Vítalía hafi hvorki nafngreint þáverandi ástmann sinn né mennina sem hún sakar um að hafa brotið á sér í viðtalinu hjá Eddu Falak hafði hún nafngreint þá opinberlega á samfélagsmiðlinum Instagram í október síðastliðnum.
Þar á meðal nafngreindi hún þáverandi ástmann sinn, Arnar Grant, einkaþjálfara í World Class og annan mannanna á bak við próteindrykkina Hámark og Teyg. Auk Arnars nafngreindi hún þrjá vel þekkta menn úr viðskiptalífinu sem voru með henni og Arnari í sumarbústaðarferðinni, þá Ara Edwald, Þórð Má Jóhannesson og Hreggvið Jónsson.
Vítalía hefur svo deilt skjáskotum af samskiptum við manninn sem hún segir hafa brotið á sér í golfferðinni umræddu en það er fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann.
Reyndi að vekja athygli fjölmiðla á málinu
Innt eftir því segist Edda hafa reynt að vekja athygli fjölmiðla á málinu þegar Vítalía nafngreindi mennina á samfélagsmiðlum en það hafi ekki borið árangur.
„Ég sendi þetta á einhverja blaðamenn til að athuga hvort einhver ætlaði að fjalla um þetta en fékk engin svör.“
Rétt er þó að nefna að Mannlíf hefur ítrekað reynt að ná á Vítalíu vegna málsins síðan hún nafngreindi mennina sem um ræðir á samfélagsmiðlum sínum fyrir jól.
Vítalía hafi þó sjálf ákveðið að leita til Eddu vegna málsins fyrir nokkrum vikum.
„Hún spyr mig hvort þetta sé ekki eitthvað sem þurfi að vekja athygli á og við ákváðum bara að gera það,“ segir Edda í samtali við MBL.
Fólk er í sjokki
Edda segir viðbrögðin við viðtalinu hafa verið misjöfn en heilt yfir hafi þau verið góð.
„Ég held að fólk sé bara svolítið í sjokki. Svo verður maður líka að hafa í huga að þetta er ákveðið áfall fyrir aðstandendur líka. Það eru fleiri sem eru þolendur í þessu máli, en bara á annan hátt.“
Aðspurð segist Edda ekki hafa búist við svona miklum viðbrögðum við málinu.
„Ég held að við höfum ekki verið að búast við svona mikilli sprengju því Vítalía var búin að vekja athygli á þessu áður. Svo snerist þetta heldur ekki um að taka einhverja menn niður. Þetta snerist frekar um að opna á viðbjóðinn sem hún upplifði og það sem kom fyrir hana. Síðan nafngreina menn sig bara sjálfir ef þeir tengja við söguna.“