Kvikmyndin Snerting í leikstjórn Baltasars Kormáks verður fram Íslands til næstu Óskarsverðlauna en Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían greinir frá þessu í fréttatilkynningu.
Snerting hefur hlotið góða dóma um alla heim og hafa margir sérstaklega rætt um leiksigur Egils Ólafssonar í því samhengi en í janúar verða tilnefningarnar gefnar út og verður forvitnilegt að sjá hvort að Snerting verði þar á meðal. Myndin er gerð eftir bók Ólafs Ólafssonar en hann er einnig handritshöfundar myndarinnar ásamt Baltasar.
„Snerting er í senn epísk og afskaplega mannleg saga um tilfinningar, ást, eftirsjá og litlu augnablikin í lífi hvers manns sem öðlast merkingu þegar horft er til baka.
Í Snertingu er unnið með klassísk þemu og frásagnarstef á nýstárlegan og listrænan máta. Mögulega er hægt að endurheimta ástina sem rann aðalpersónunum úr greipum áratugum fyrr, en spurningin hvað það þýðir og hvað hefur glatast liggur myndinni til grundvallar.
Á sama tíma og unnið er með þessi klassísku stef eru þau framsett með óvenjulegri sjónrænni fágun og næmni, og hinn þverþjóðlegi söguheimur er kallaður fram ekki sem bakgrunnur heldur burðarstólpi í sjálfri ástarsögunni; inn í viðkynningu Miko og Kristófers eru þræddir sögulegir og menningarlegir þættir sem bæði sameina og sundra.
Tengingarnar milli parsins og ástin sjálf birtast í lýsingu og sjónarhorni, birtunni sem umlykur líkama þeirra og hvernig þeir samtvinnast og snertast, í rýmisvenslunum í eldhúsinu alveg eins og því sem er sagt.
Snerting er hrífandi saga um mennskuna, menningarheima sem skarast á og leitina að svörum við ósvöruðum spurningum. Atvik og örlög heillar mannsævi fléttuð saman í órofa heild“ segir í umsögn ÍSKA um myndina.