Q – Félag hinsegin stúdenta segja ætla að sniðganga gleðigönguna í ár. Ástæðan er sögð framkoma stjórnar Hinsegin daga gagnvart manneskju sem var handtekin í Gleðgöngunni árið 2019. Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna. Q segir stjórnina hafa sigað lögreglunni á viðkomandi, en hán hefur síðan þá fengið greiddar miskabætur vegna atviksins. Stúdentar segja stjórnina þaga þunnu hljóði og hafi ekki einu sinni beðist afsökunar.
„Í gleðigöngunni 2019 var hinsegin manneskja handtekin eftir að stjórn Hinsegin daga sigaði lögreglunni á hán fyrir það eitt að ætla að mæta á gönguna, og lögreglan beitti hán síðan ofbeldi sem hán kærði fyrir. Hinsegin dagar hafa ekki beðist formlega afsökunar á því að hafa sigað lögreglunni á hán. Ekki einu sinni eftir að hán leitaði réttar síns eftir lögregluofbeldið við íslenska ríkið og fékk greiddar miskabætur. Stjórn Hinsegin daga veit upp á sig sökina en hafa valið að segja ekkert og vona þau hljóti engar afleiðingar.“
Stúdentar segja einnig að lögreglan eigi að halda sig fjarri Gleðigöngunni. „Lögreglan á ekki að fá að taka þátt í gleðigöngunni. Þetta er vettvangur hinsegin fólks, ekki forréttindastéttar sem er valdamikil í samfélaginu. Gleðigangan á að vera staður fyrir hinsegin fólk að berjast gegn ofbeldi og jaðarsetningu í samfélaginu en á sama tíma fagna eigin hinseginleika. Að lögreglan fái pláss í göngunni gerir hana að óöruggu rými fyrir margt hinsegin fólk og aðra jaðarsetta hópa,“ segir í yfirlýsingunni.