Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

„Mamma, mig dreymdi svo hroðalegan draum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árla morguns mánudaginn 16. janúar 1995 féll snjóflóð á þorpið í Súðavík á meðan flestir voru í fastasvefni. Í blindbyl og svartamyrkri hófu heimamenn leit að sínum nánustu, ættingjum og vinum við hrikalegar aðstæður.

Í bók Egils St. Fjeldsted Þrekvirki er rætt við 40 manns sem annað hvort voru á heimilum sínum þegar flóðin skullu á þeim eða tóku þátt í björgunarstörfum með einhverjum hætti. Í þessum spegli verður sögð saga þeirra sem bjuggu við Túngötu 4 í Súðavík á þeim tíma sem flóðið féll.

Túngata 4

Mynd / Skjáskot/RÚV

„Að Túngötu 4 bjó ungt par, Sigríður Rannveig Jónsdóttir og Þorsteinn Örn Gestsson ásamt
tveimur dætrum; Lindu Rut (1989) og Hrafnhildi Kristínu (1993–1995), sem var 15
mánaða gömul. Parið keypti Túngötu 4 í desember 1994 og flutti inn um miðjan
mánuðinn. Nutu þau jóla og áramóta á nýja heimilinu þar sem systurnar fengu hvor
sitt herbergið. Áður bjuggu þau í fjölbýlishúsi á Aðalgötu 2 sem ekki varð fyrir
skemmdum í snjóflóðinu.

Sigríður Rannveig hafði búið í Súðavík frá sex mánaða aldri. Þorsteinn Örn
flutti til Súðavíkur 1982 en móðir hans, Hrafnhildur Kristín Þorsteinsdóttir
(1945–1995), lést í flóðinu ásamt fósturföður hans, Sveini Gunnari Salómonssyni.

Fjölskyldan var heima að horfa á sjónvarpið laugardagskvöldið 14. janúar. Á
meðan naut Sigríður Rannveig þess að hafa Hrafnhildi litlu í fanginu og fá kossa frá
henni allt kvöldið. Síðar hugsaði Sigríður Rannveig til þess að þær áttu aðeins eftir
að vera saman í einn og hálfan sólarhring eftir þetta kvöld og því engu líkara en
dóttirin væri að kveðja hana. Þegar sunnudagurinn rann upp fannst Sigríði
Rannveigu hún þurfa að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni. Klæddust allir
sínum hlýjustu fötum, fóru út og gerðu snjóhús í stóran skafl við hliðina á húsinu. Eftir
dágóðan tíma voru allir orðnir eins og snjókarlar og foreldrunum minnisstætt að löng
augnhár Hrafnhildar Kristínar voru þakin snjó og kinnarnar rauðar eins og epli.

Um kvöldið var hringt í foreldra barna í leikskólanum og þeim tilkynnt að
skólahald félli niður næsta dag vegna veðurs. Af þeim sökum lá ekkert á að koma
stelpunum í háttinn og bökuðu mæðgurnar vöfflur rétt fyrir miðnætti og fóru síðan
allar saman í bað. Systurnar hjúfruðu sig upp að móður sinni í hjónarúminu á meðan
hún söng fyrir þær. Þetta var í síðasta skipið sem Sigríður Rannveig hafði þær báðar
í örmum sínum. Stuttu síðar færði Þorsteinn Örn þær sofandi yfir í herbergin sín án
þess að þær rumskuðu.

- Auglýsing -

Allt frá því að veðrið tók að versna um kvöldið var Sigríður Rannveig óróleg og
spurði Þorstein Örn endurtekið hvort hætta væri á snjóflóði. Svaraði hann því til að
engin hætta væri á ferð, annars væri almannavarnanefndin á staðnum búin að láta
þau vita. Lét hún þar við sitja en fór margoft að svefnherbergisglugganum og horfði
upp í hlíðina þrátt fyrir ekkert skyggni.

Loftþrýstingur sprengdi þakið af húsinu

Mynd. Skjáskot/RÚV

Sigríður Rannveig sofnaði loks um klukkan 05:00 en vaknaði aftur tæpri einni
og hálfri klukkustund síðar í verstu martröð sem hægt er að hugsa sér. Loftþrýstingur
sprengdi þakið af húsinu og um leið þeyttist hún upp í loft og heyrði sprengingu og
hávaða sem var ólíkur öllu sem hún hafði áður heyrt. Á meðan horfði hún á
svefnherbergið og rúðurnar splundrast. Örskotsstund síðar æddi flóðið á húsið og
um leið sá hún stóra snjóköggla koma æðandi á móti sér.

Innra með sér öskraði hún: „Ég vissi að það kæmi snjóflóð“. Nánast á sama augnabliki tók hrammur flóðsins hana með sér. Á þeirri stundu fannst henni að hún væri að kafna og taldi víst að hún myndi deyja en náði strax að ýta þeirri hugsun frá sér og hugsa í staðinn: „Ég verð að lifa!“ Byrjaði hún þá að reyna að klóra sig upp á yfirborð flóðsins en kraftarnir sem
toguðu í hana úr öllum áttum voru slíkir að hún gafst nánast upp.

- Auglýsing -

Á meðan hún barst með flóðinu fannst henni sem hún sæi ljós, sem trúlega kom frá höfninni. Síðan varð allt svart þar til hún rankaði við sér nærri pósthúsinu. Hún horfði þá upp í loftið og sá bara snjókomu en um leið fann hún að fæturnir voru fastir undir þungu fargi. Sigríður Rannveig náði að losa sig með erfiðismunum og tók þá eftir því að hún var eingöngu klædd í rifinn náttgalla. Þegar henni tókst að standa upp sá hún bara snjó og brak allt í kringum sig. Snerist hún þá í hringi um sjálfa sig og hugsaði: „Hvar á ég að leita?
Hvar eru stelpurnar mínar?“

Berfætt og ísköld

Í námunda við sig heyrði hún í Þorsteini Erni, manni sínum, og án þess að
hugsa sérstaklega út í það tók hún því sem gefnu að hann væri einnig að leita að
börnunum. Þegar hún hafði gengið berfætt og ísköld um næsta nágrenni í dágóðan
tíma kom hún auga á konu í hvítum náttkjól sem kom gangandi í áttina að henni, reyndist það vera Wieslawa Vera Lupinska úr Túngötu 7.

Í fyrstu taldi hún víst að nágranni sinn væri kominn til að hjálpa sér að leita en þegar hún sá skelfingarsvipinn í andliti hennar gerði hún sér grein fyrir að húsið hennar og Bellu Vestfjörð hafði einnig orðið fyrir snjóflóðinu.

Ákváðu þær að reyna í sameiningu að finna hjálp og gengu að símaklefa sem
stóð fyrir neðan innra hornið á pósthúsinu. Þegar þangað kom var kuldinn farinn að
segja verulega til sín þannig að Sigríður Rannveig átti í erfiðleikum með að standa
upprétt.

Harkaði hún af sér og burstaði snjó af símtækinu sem hún vissi að var búið
að vera fullt af smápeningum í langan tíma og því hægt að hringja frítt innan sama
svæðisnúmers. Byrjaði hún á að hringja ítrekað í 4422, sem hún taldi vera
símanúmerið hjá lögreglunni á Ísafirði, án þess að fá svar. Daginn eftir fékk hún að
vita að rétt númer var 4222.

Á milli þess að hringja í rangt númer reyndi hún að ná sambandi við tengdaforeldra sína og aðra sem hún taldi að gætu hjálpað sér. Seinna fékk hún að vita að tengingin við símaklefann var farin í sundur.

Þegar enginn svaraði ákvað Wieslawa Vera að fara og leita að hjálp en Sigríður Rannveig var þá orðin svo máttfarin að hún treysti sér ekki til fylgja henni og skildu þá leiðir. Þegar hún var orðin ein hugsaði hún hvort hún ætti að reyna komast til foreldra sinna sem bjuggu í um það bil 150 metra fjarlægð, í Túngötu 11. Hún var meðvituð um að þangað kæmist hún ekki nema skríðandi á fjórum fótum.

Fann til vanmáttar

Mynd. Skjáskot/RÚV

Á meðan hún hugsaði þetta hneig hún niður. Fætur hennar voru þá orðnir svo dofnir úr kulda að hún fann ekki lengur fyrir þeim. Auk þess var andlitið og allur líkaminn marinn, skorinn og alblóðugur. Í raun hlýddi líkaminn ekki lengur vilja hennar. Á meðan hún sat og hugsaði næstu skref tók hún eftir bíl nálægt símaklefanum og reyndist hann vera ólæstur. Settist hún í bílstjórasætið og leitaði að lyklunum til að koma honum í gang og fá hita, en fann þá hvergi.

Fannst henni eins og hún væri að missa stjórn á hugsunum sínum og fann til vanmáttar að geta ekki leitað að börnunum. Á meðan hún barðist við hugann leit hún í kringum sig og tók eftir sjúkrakassa sem í voru álteppi og sáraumbúðir. Klæddi hún sig úr blautum og
rifnum náttfötunum og vafði teppinu utan um sig og setti umbúðir yfir stærstu skurðina.

Eftir það færðist yfir hana doðakenndur svefn og vissi hún lítið af sér þegar hún lagði höfuðið á bílflautuna. Lá hún þannig í ótilgreindan tíma þar til Guðjón Marteinn frá Tröð bankaði á hliðarrúðuna og um leið og Sigríður Rannveig skrúfaði niður rúðuna sagði hann: „Guð, þú ert að deyja“. Hún svaraði: ,,Nei, ég er ekki að deyja!“ Treysti hann sér ekki til að fara einn með hana yfir götuna í skjól í Shellsjoppuna. Hljóp hann fyrst þangað og náði í annan mann til að aðstoða sig.

Sporin til hennar voru þung

Þrátt fyrir að vegalengdin yfir götuna væri aðeins 25–30 metrar fannst henni það taka
eilífð að komast þann spöl. Þorsteinn Örn var þá kominn í sjoppuna ásamt fleira fólki
sem tók á móti henni, dúðaði í öll tiltæk föt og nuddaði hita í hana inni á skrifstofunni.

Einn þeirra sem kom í Shellsjoppuna skömmu eftir að Sigríður Rannveig var borin þangað var faðir hennar, Jón Ragnarsson (1944–2016) sem bjó ásamt fjölskyldu sinni í Túngötu 11 sem stóð nálægt jaðri flóðsins. Þegar hann frétti af flóðinu fór hann á snjósleða niður í hraðfrystihús þar sem hann frétti að flóðið hefði tekið hús dóttur hans.

Fór hann beina leið þangað, þar sem aðeins stóðu eftir tveir húsgaflar, féll ráðalaus niður á hnén og grét. Þaðan fór hann aftur að heimili sínu og fór með fjölskylduna niður í hraðfrystihús. Fljótlega eftir það barst honum til eyrna að dóttir hans væri í sjoppunni. Eins og gefur að skilja voru honum sporin til hennar þung, vitandi um angist hennar á meðan hún beið frétta af báðum börnunum og tengdaforeldrum sínum.

Ólíkt Sigríði Rannveigu man Þorsteinn Örn ekki eftir þegar snjóflóðið féll á heimili þeirra. Fyrsta minning hans var að standa í hríðarbyl og myrkri við hliðina á ótilgreindum vegg, sem hann hélt að væri heimili sitt. Gekk hann líkt og í svefni nokkra hringi í kringum vegginn í leit að inngangi. Þegar hann áttaði sig betur á aðstæðum leit hann niður eftir líkama sínum og sá að hann var nakinn, blóðugur og með klakahröngl á líkamanum. Um leið fann hann hvernig kuldinn nísti inn að beini.

Svo tók hann eftir ljósi og gekk í áttina að því en þegar hann nálgaðist heyrði hann konu hrópa. Þegar hann kom nær sá hann Berglindi Maríu Kristjánsdóttur, nágranna sinn frá Túngötu 5, sitja ofan í holu og kalla á börnin sín þrjú sem voru týnd. Hann leit betur í kringum sig og sá að þau voru nálægt pósthúsinu, aðeins nokkra metra frá símaklefanum og bílnum þar sem Sigríður Rannveig var að krókna úr kulda.

Leitarhundarnir

Um hádegisbil voru leitarhundarnir búnir að marka fjölmarga staði þar sem búið var
að setja upp starfsstöðvar og mest var leitað. Á þeim þurftu björgunarmenn að moka
gífurlegu magni af snjó sem var seinlegt, sérstaklega í ljósi þessi að snjóflóðaýlar
takmörkuðu fjöldann inni á svæðinu.

Af þeim sökum fór Arnar Þór Stefánsson án aðstoðarmanns að Túngötu 4 með
leitarhundinn Hnotu, þar sem systranna Lindu Rutar Sigríðardóttur 5 ára og
Hrafnhildar Kristínar Þorsteinsdóttur 16 mánaða var saknað.

Aðkoman var í einu orði sagt hrikaleg, aðeins stóðu uppi endagaflarnir og lítill hliðarveggur ofan til sem hallaði inn í húsið, og steypustyrktarjárn héldu föstum við grunninn í einu horni. Rúm Lindu Rutar hafði staðið í horninu undir stórum glugga. Um leið og hundurinn kom að húsinu fór hann beint að þessum stað og ákvað Arnar Þór að moka aðeins undan
veggnum. Honum til mikillar undrunar var Linda Rut þar ótrúlega vel á sig komin eftir
að hafa verið grafin í um það bil fimm klukkustundir.

„Ég er sprelllifandi“

Í viðtali við dagblað tíu árum eftir að snjóflóðið féll sagðist Linda Rut muna eftir að
hafa vaknað og litið upp og séð ljós. Síðan hafi hún heyrt kallað: „Linda, ertu þarna?“ Svaraði hún þá: „Ég er sprelllifandi“. Eftir það var hún sett á sjúkrabörur og komið
undir læknishendur í hraðfrystihúsinu.

Foreldrar Lindu Rutar, Sigríður Rannveig Jónsdóttir og Þorsteinn Örn Gestsson
sem björguðust með ótrúlegum hætti fyrr um morguninn biðu frétta af dætrum sínum.

Þau höfðu verið flutt úr Shellsjoppunni skömmu eftir að stjórnstöð var sett upp í
hraðfrystihúsinu. Af ókunnum ástæðum var Þorsteinn Örn fluttur í hraðfrystihúsið en
Sigríður Rannveig á sjúkrabörum um borð í Fagranes. Þar var henni komið fyrir einni
í klefa og hún látin nær afskiptalaus, fyrir utan að gert var að fjölmörgum skurðum
víðs vegar um líkamann.

Í hádeginu kom bróðir hennar um borð og sagði að mæðgurnar Bella Aðalheiður og Petrea Vestfjörð hefðu fundist látnar. Sagði hann henni einnig þá gleðifrétt að Linda Rut hefði fundist alheil í snjóflóðinu. Bætti hann svo við að verið væri að undirbúa að flytja hana úr Fagranesinu yfir í hraðfrystihúsið þar sem hún gæti hitt dóttur sína. Grét Sigríður Rannveig þá líkt og hún hafði aldrei áður gert um ævina. Skugga bar þó á tíðindin þar sem enn átti eftir að finna Hrafnhildi Kristínu litlu og afa hennar og ömmu.

„Mamma, mig dreymdi svo hroðalegan draum“

Það fyrsta sem Sigríður Rannveig sá þegar hún kom í sjúkrarýmið var Linda Rut liggjandi á borði. Þegar hún kom nær sá hún að dóttir hennar var snjóhvít og helköld viðkomu. Stuttu seinna sagði Linda Rut við móður sína: „Mamma, mig dreymdi svo hroðalegan draum. Það kom snjór inn um gluggann hjá mér og ég lá bara í rúminu. En svo komu mennirnir og náðu í mig.“

Fljótlega eftir hádegi fannst Hrafnhildur Kristín Þorsteinsdóttur látin nálægt þeim stað
sem Linda Rut systir hennar hafði fundist á lífi um morguninn. Hún hafði orðið 1 árs september árið á undan og var alnafna ömmu sinnar.“

Hægt er fræðast nánar um atburðina í bók hans Þrekvirki. Bókin prýðir fjölda mynda og er hægt að nálgast hana í helstu bókabúðum og hjá höfundi – sjá fésbókartengil.

 

Heimildir:

Egill St. Fjeldsted. 2021. Þrekvirki. Egill St. Fjeldsted. Reykjavík.

Ópr. Skýrsla Kristjáns Bjarna Guðmundssonar.

Ópr. Skýrsla Kristjáns Bjarna Guðmundssonar.

Viðtal. Höfundur við Berglindi Maríu Kristjánsdóttur, 22. september 2021. „Biðin var að buga okkur“. DV 21. janúar 1995, bls. 28–29.

Viðtal. Höfundur við Sigríði Rannveigu Jónsdóttur, 30. ágúst 2021. ,,Það eru lífin sem skipta öllu“. Morgunblaðið 19. janúar 1995, bls. 4.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -