Hjúkrunarfræðingurinn Soffía Steingrímsdóttir, vakstjóri á bráðamóttöku, er ekki tilbúin til að ljúga fyrir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Hún segir starfsfólk Landspítala einfaldlega komið með nóg af sorglegu ástandi sjúkrahússins.
Þetta kemur fram í færslu Soffíu á Facebook þar sem hún fullyrðir að ástandið á Landspítalanum versni með hverjum deginum. Hún skilur illa beiðni Svandísar um að heilbrigðissstarfsfólk tali ekki niður ástandið á spítalanum.
„Er aðlaðandi fyrir nýútskrifaðan hjúkrunarfræðing að koma inn í þessar aðstæður? Nei, auðvitað ekki, en eigum við að ljúga? Ég spyr? Sorglegt…við hrópum og köllum fyrir skjólstæðinga okkar. Við höfum marg lýst ástandinu og það er ekkert að batna… versnar með degi hverjum ef eitthvað er,“ segir Soffía sorgmædd.
„Stundum eigum við ekki stól til að setja fólk í. Þyngra en tárum taki… aldraðir, fólk með verki, andlega veikir þurfa að berskjalda sig á göngum, sem er alls ekki í lagi og við viljum ekki hafa þetta svona. Við viljum hugsa um hvern sjúkling af alúð og gera okkar allra besta. Að fara heim með samviskubit, vanlíðan og kvíða yfir að hafa ekki gert nóg er ömurlegt. Við erum búin að fá nóg. Sorry.“