Frá klukkan 17:00 í gær þar til klukkan 05:00 í nótt voru fimm einstaklingar látnir gista í fangaklefum lögregunnar á höfuðborgarsvæðinu en alls voru 40 mál bókuð í kerfum lögreglunnar á tímabilinu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.
Lögreglan sem sér um Austurbæinn, miðbæ Reykjavíkur, Vesturbæinn og Seltjarnarnes handtók sölumann dauðans en hann var grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Verið er að rannsaka málið frekar.
Úr hverfi 104 barst lögreglu tilkynning um yfirstandandi innbrot. Lögreglan fór með forgangi á vettvang og hafði hendur í hári innbrotsþrjótsins. Gistir hann nú fangageymslur þar til hægt verður að taka skýrslu af honum vegna málsins.
Þá barst tilkynning um perufullan mann sem sýndi ógnandi tilburði í garð vegfarenda í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögreglan gerði heiðarlega tilraun til að ræða við manninn klæddi hann sig úr skónum sínum og gerði sig líklegan til þess að beita þeim gegn lögreglumönnunum. Var hann þá snarlega handtekinn og færður til vistuna í fangaklefa þar til rennur af honum.
Bifreið valt í Breiðholtinu en ökumaður reyndist með minniháttar meiðsl. Hann var þó ölvaður við akstur og án gildra ökuréttinda.