Sunnudagur 27. október, 2024
3.1 C
Reykjavik

Sólveig Anna hlær að orðum Guðmundar: „Ég myndi leggja til að hann skammaðist sín“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Í Kastljósi í gærkvöld krafðist Guðmundur Baldursson þess að Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, segði af sér líkt og ég hef gert. Mér var vissulega ekki hlátur í hug en ég gat þó ekki annað en hlegið agnarsmáum hlátri þegar Guðmundur lét þessi orð falla.“

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, í nýrri yfirlýsingu sem hún sendi frá sér á Facebook-síðu sinni nú í morgun.

Í Kastljósþætti gærkvöldsins sagði Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, sína hlið á atburðunum sem enduðu með afsögn Sólveigar Önnu úr formannsstóli stéttarfélagsins.

Þar sagðist Guðmundur hafa óskað eftir upplýsingum í kjölfar þess að einum starfsmanni var sagt upp störfum hjá félaginu. Þær upplýsingar fékk hann ekki. Hann vildi einnig fá upplýsingar um starfslokasamning sem gerður var við skrifstofustjóra sem var sagt upp störfum.

„Ég komst síðar að því eftir öðrum leiðum að gerður hafi verið við hana 9 mánaða starfslokasamningur og þar á undan var hún búin að vera í 3 mánuði í veikindaleyfi. 9 mánuðir í starfslokasamning hjá verkalýðsfélagi eftir tveggja ára starf þykir nokkuð ríflegt.“

Hann neitaði því alfarið að hann gengi erinda einhverra stjórnmálaflokka. Sagðist Guðmundur eingöngu vera að fara eftir lögum sem honum beri að gera – það er að fylgja eftir því að ekki sé verið að gera óþarflega langa starfslokasamninga.

- Auglýsing -

 

Krafa Guðmundar yfirgengileg og óbærilega ógeðsleg

„Ég hugsaði um „afrekalista“ hans í störfum fyrir félagið og fólkið sem tilheyrir því, og svo hvað Agnieszka hefur gert og þessvegna hló ég í örskamma stund. Fáránleiki þess að þessi maður væri að krefjast þess að hún léti sig hverfa var svo yfirgengilegur. En auðvitað fyrst og síðast svo óbærilega ógeðslegur,“ segir Sólveig Anna í yfirlýsingu sinni.

Sólveig segir að Agnieszka sé valin af félögum sínum til að gegna stöðu varaformanns. Það hafi hún gert með sóma.

- Auglýsing -

„Áður var hún trúnaðarmaður árum saman og barðist gegn launaþjófnaði og óboðlegum aðstæðum, svo sem engri salernisaðstöðu. Hún er fyrsta konan af pólskum uppruna sem gegnir svo mikilvægu hlutverki í íslenskri verkalýðshreyfingu. Hún er fyrsti raunverulegi fulltrúi aðflutts verkafólks í verkalýðs-baráttunni.

Hún þekkir allt það svívirðilega rugl sem viðgengst gagnvart aðfluttu verkafólki á eigin skinni. Allt. Hún hefur, ásamt mér og þeim í stjórn sem raunverulega hafa viljað bæta hag alls vinnuaflsins, ekki bara hag þeirra sem líta út og tala eins og þeir sjálfir, leitt stórkostlega umbóta vinnu innan félagsins þegar kemur að því að tryggja að okkar aðfluttu félagar eigi rétt á nákvæmlega sömu þjónustu og þau okkar sem fædd eru hér.“

Sólveig Anna minnir á að um það bil helmingur félagsfólks Eflingar sé aðflutt fólk.

„Í fyrsta skipti er í ábyrgðarhlutverki manneskja sem tilheyrir þeim hópi, manneskja sem berst fyrir þennan hóp af öllu hjarta, alla leið. Og svo dirfist einhver maður að segja henni að láta sig hverfa. Ég myndi leggja til að hann skammaðist sín en ég veit af mikilli reynslu að það kann hann ekki.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -