„Var að skrá mig í DíaMat,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í athugasemd við færslu Þorvaldar Þorvaldssonar, jafnan þekktur fyrir framboð sitt, Alþýðufylkinguna. En hvað er DíaMat?
Það er lífskoðunarfélag sem lítið hefur farið fyrir frá því það var stofnað árið 2016. Meðlimir eru 160 og er forstöðumaður félagsins Vésteinn Valgarðsson. DíaMat stendur fyrir díalektíska efnishyggju, sem er einn helsti kjarni hugmynda Karls Marx. Í grófum dráttum má því segja að DíaMat sé trúlaust lífskoðunarfélag Marxista á Íslandi. Hér má lesa nánar um félagið.
Hvað sem fólki kann að finnast um kenningar Marx þá er þó eitt ljóst, sóknargjöld þeirra sem eru skráðir í félagið fara í eitthvað gagnlegt, en ekki í laun presta. Í það minnsta ef marka má færsluna sem Sólveig Anna skrifaði athugasemd við.
Þar er greint frá því að DíaMat hafi gefið góðgerðasamtökunum Réttur barna á flótta styrk upp á 250 þúsund krónur. Góðgerðasamtökin segja svo: „Við sendum okkar bestu þakkir fyrir þennan fjárstuðning. Slíkur stuðningur rennur alltaf beint til þeirra barna á flótta sem þurfa á fjárhagslegri aðstoð að halda fyrir lögfræðikostnaði meðan þau sækja um vernd hér á landi.“