Sunnudagur 12. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Sólveig Anna svarar SVEIT fullum hálsi: „Aumingja mennirnir að vera svona vitlausir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Deilur Eflingar við SVEIT, samtök fyrirtækja á veitingamarkaði eru farin að harðna enn meira en lögreglan var kölluð til í Kringluna í gær en meðlimir Eflingar höfðu efnt til mótmæla fyrir utan veitingastaðinn Finnsson. Sólveig Anna Jónsdóttir skýtur föstum skotum á framkvæmdarstjóra og lögmann SVEIT í nýrri Facebook-færslu.

„Hvort komu Eflingarmeðlimir saman fyrir utan veitingastaðinn Finnsson í gær vegna sjúkrar fégræðgi Eflingar, eins og Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri SVEIT heldur fram, eða vegna þess að ég elska að góla í gjallarhorn, eins og lögmaður SVEIT Sigurður G. Guðjónsson, hélt fram við Stöð 2 í gær?“ Þannig hefst Facebook-færsla Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar sem hún birti í morgun.

Svarið sem Sólveig Anna kemur með er eftirfarandi:

„Hvorugt. Hvorugt er rétt. Aumingja mennirnir að vera svona vitlausir. Við í Eflingu mótmæltum í gær fyrir utan veitingastaðinn Finnsson, í eigu Óskars Finnssonar, vegna þess að Óskar Finnsson hefur skráð fólk í svika-stéttarfélagið Virðingu, félag stofnað af atvinnurekendum, til að lækka laun fólks og ráðast að flestum mikilvægustu réttindum vinnandi fólks á Íslandi, líkt og veikindarétt, rétt til að vera með veikum börnum, orlofsrétt, réttindum barnshafandi kvenna og svo mætti áfram telja. Staðreyndin er sú að gervikjarasamningur svika-stéttarfélagsins Virðingar brýtur bæði gegn íslenskum lögum og Evrópusambandsreglugerðum og -tilskipunum. Til viðbótar við þetta gerir ráðningarsamningur sá sem svika-stéttarfélagið Virðing og SVEIT hafa útbúið ráð fyrir persónunjósnum atvinnurekenda á starfsfólki, en lögmenn Eflingar hafa sent Persónuvernd kvörtun vegna málsins. Það er mat lögmanna að umrætt persónunjósna-ákvæði í ráðningarsamningnum brjóti gegn persónuverndarlögum og einnig gegn reglugerð Evrópusambandsins um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.“

Segir Sólveig Anna ennfremur að hlutverk Eflingar sé að „standa vörð um kjör, réttindi og hagsmuni verkafólks á félagssvæði félagsins“.

„Þetta eru ástæðurnar fyrir því að við í Eflingu mótmæltum fyrir utan veitingastaðinn Finnsson í gær. Hlutverk Eflingar er að standa vörð um kjör, réttindi og hagsmuni verkafólks á félagssvæði félagsins. Það munum við ávallt gera. Enda er Efling raunverulegt verkalýðsfélag, ekki svika-félag stofnað af atvinnurekendum til að níðast á vinnandi fólki. Í baráttu okkar fyrir réttindum og hagsmunum verka og láglaunafólks beitum við öllum þeim aðferðum sem við teljum réttar og líklegar til árangurs. Við í Eflingu munum ekki hætta aðgerðum okkar fyrr en að við getum fullvissað okkur um að Óskar Finnsson, eigandi Finnsson og aðrir sem við fáum fregnir af að séu að skrá starfsfólk í svika-stéttarfélagið Virðingu, láti af brotum sínu gegn verkafólki og fylgi gildandi, löglegum kjarasamningi Eflingar og SA um störf á veitingamarkaði.“

- Auglýsing -

Að lokum hvetur Sólveig Anna fólk til þess að standa með Eflingu í baráttu við SVEIT og Virðingu:

„Ég hvet ykkur til að standa með okkur í Eflingu í baráttunni við SVEIT og Virðingu. Með því eruð þið að standa vörð um kjör og réttindi okkar allra. Það skal ekki gerast á okkar vakt að atvinnurekendur komist upp með að stofna gervi-stéttarfélag til að níðast á saklausu fólki.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -