„Eflingarfólk alls staðar að úr heiminum, vinnuafl höfuðborgarsvæðisins, kom saman til að ræða sín Eflingar-mál af þeirri alvöru sem umræðuefnið kallar á en einnig af þeirri sönnu baráttugleði sem einkennir allar sannar Eflingar-samkomur,“ skrifaði Sólveig Anna á Facebook-síðu sína í gærkvöldi eftir að fundi Samninganefnd Eflingar lauk. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að ástæða sé til að ætla að verkfallsaðgerðir verði boðaðar í dag en Samninganefnd sleit kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins þann 10. janúar síðastliðinn. Í Facebook-færslu Sólveigar sagði hún magnaðan Eflingar-dag að kvöldi kominn en færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.
„Enn annar magnaður Eflingar-dagur að kvöldi kominn: Eflingarfólk allstaðar að úr heiminum, vinnuafl höfuðborgarsvæðisins, kom saman til að ræða sín Eflingar-mál af þeirri alvöru sem umræðuefnið kallar á en einnig af þeirri sönnu baráttugleði sem einkennir allar sannar Eflingar-samkomur.
Hvernig getur íslensku auðvaldi dottið til hugar að það eigi eitthvað í þetta einvalalið fólks sem veit að það er algjörlega ómissandi og er tilbúið til að sýna fram á það með eins skýrum hætti og hægt er að hugsa sér?
Ég vona að ég gleymi þessum degi aldrei. Hann var einstakur eins og allt fólkið á myndinni.“