Okkar ástkæra söngkona Helga Möller, þekktust fyrir sín fallegu dægur- og jólalög, og veru sína í dúettnum gríðarvinsæla Þú og ég, og að sjálfsögðu Gleðibankann í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1986, hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.
Helga greinir skemmtilega frá sínum ferli á facebook síðu sinni:
„Ég heiti Helga Möller, 64 ára Reykvíkingur en hef búið í Mosfellbæ í 3 ár og elska það.
Ég býð mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og stefni á 3-4 sætið.
Ég er þriggja barna móðir og amma þriggja yndislegra barnabarna.
Ég er með stúdentspróf frá hagfræðideild Verslunarskóla Íslands, lærði þýsku í háskólanum í Dusseldorf og útskrifðaðist í vor frá Bifröst.. Mætti kvenna.. stofnun og rekstur fyrirtækja.
Ég hef starfað sem flugfreyja og söngkona allt mitt líf, en söngkonuferillinn minn byrjaði þegar ég var 14 ára og flugfreyjuferillinn þegar ég var 19 ára. Bæði þessi störf hafa kennt mér svo ótal margt… umburðarlyndi, virðingu, þolinmæði, ást, vinskap og heiðarleika og einnig kennt mér hvað mannleg samskipti skipta miklu máli í lífinu og að vera trúr sjálfum sér.
Ég flutti í Mosfellsbæ af því að mig langaði til að fara út fyrir Reykjavík og vera nær náttúrunni og féll alveg fyrir Helgafellslandinu. Hér fékk ég allt sem ég var að leita að. Íbúð í fallegu fjölbýlishúsi með lyftu og bílakjallara, með góðu útsýni yfir Helgafellið og Úlfarsfellið, yndislegar gönguleiðir, Álafosshvosina og fossinn Álafoss.
Ég upplifði bæjarhátíðina okkar og fékk að skreyta svalirnar mínar í bláu í fyrsta skiptið á ævinni og allt svona lítið og persónulegt heillar mig við bæinn okkar. Mig langaði líka að kynnast fólkinu og ákvað því að sækja alla þjónustu sem ég get hér í Mosfellsbæ og hef kynnst góðu fólki í kringum það.
Hér er allt eitthvað svo miklu persónulegra, minna í sniðum og það var líka akkúrat það sem mig langaði til að fá.
Ég brenn fyrir því að Mosfellsbær verði enn betri kostur til að búa í. Ég brenn fyrir íbúum Mosfellsbæjar, gamla fólkinu, börnunum og fjölskyldunum. Ég brenn fyrir skipulagsmálum og kannski einna helst fyrir menningarmálunum sem eru mér ofarlega í huga.
Við eigum svo frábæran bæ og það væri yndislegt að fá að vera þátttakandi næstu 4 árin í gera bæinn okkar enn betri.
Ég vonast því eftir stuðingi ykkar og mun leggja mig alla fram að vinna í þágu bæjarbúa.
Helga Möller
Stoltur Mosfellingur.“