Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Sonja segir Hjálpræðisherskonur hafa verið grimmar: „Svo rak hún tunguna upp í munninn á mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sonja Ingvadóttir var ein þeirra stúlkna sem vistaðar voru á stúlknaheimilinu Bjargi á árunum 1965 til 1967. Hún var 14 ára gömul þegar hún var send á heimilið og er meðal þeirra sem hefur sakað forsvarsmenn og starfskonur heimilisins um harðræði og ofbeldi.

Sonja var ein þeirra sem stóð að kæru á hendur Bjargi árið 1967. Á endanum var málið láta niður falla því ekki þóttu nægar sannanir fyrir hendi til þess að höfða opinbert mál. Bjarg varð seinna eitt þeirra vistheimila sem ríkið greiddi sanngirnisbætur vegna og þótti sennilegt að stúlkurnar sem þar voru vistaðar hefðu þurft að þola óforsvaranlega meðferð þeirra sem þar stjórnuðu og störfuðu.

Eftirfarandi er brot úr viðtali við Sonju sem birtist í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

 

Lífið á Bjargi og Hjálpræðisherinn

Á Bjargi störfuðu aðallega konur frá Hjálpræðishernum, sem voru gæslukonur á heimilinu. Sonja lýsir þeim meðal annars sem óheiðarlegum og grimmum.

„Þær voru líka langt frá því að vera gáfaðar. En þú ert heldur ekki sérlega smart ef þú heldur að þú komist til himna með því að ganga í einkennisbúningi og skrækja sálma úti á götum.“

- Auglýsing -

Sonja segist sjálf ekki hafa verið beitt miklu líkamlegu ofbeldi, því hún hafi verið hlýðin. Hún hafi snemma séð hvað hún þurfti að gera til þess að lifa af. Auk þess hafi hún verið góður námsmaður, sem hafi hentað forsvarsmönnum Bjargs vel.

„Þær þorðu ekki að hreyfa mig, en ég sá hvernig þær fóru með Marion Grey. Ég sá þær draga hana á hárinu. Þær reyndu að stela barninu hennar. Þær eyðilögðu líf hennar líka. Við vorum allar eyðilagðar þarna. Ég held að það hafi bara verið ein sem kom vel út. En sú kynntist líka góðum manni, sem ég held að hafi hjálpað henni að byggja sig upp.

Gæslukonurnar voru konur sem áttu aldrei að vera nálægt börnum. Hjálpræðisherinn á ekki að vera nálægt börnum.“

„Við vorum allar eyðilagðar þarna“

- Auglýsing -

Sonja segir að á Bjargi hafi stúlkurnar þurft að fara í messur hjá Hjálpræðishernum að minnsta kosti einu sinni í viku, á sunnudögum. „Ég neitaði því og sagðist heldur vilja vera heima. Ég sagði: „Ég er búddisti og það er trúfrelsi á Íslandi.

Þá sendum við þig í Kópavog,“ sagði forstöðukonan. Ég varð kristin eins og skot.“

Þarna vísar Sonja til Upptökuheimilisins í Kópavogi, heimilisins sem hún hóf vist sína á eftir að hún var sótt með lögreglubílnum; staðarins með gluggalausa herberginu. Þangað voru stúlkurnar reglulega sendar í einangrun.

Sonja lærði því fljótt að hún þyrfti að gera nákvæmlega það sem henni var sagt, svo hún yrði ekki send á þann hræðilega stað aftur.

„Ég sá þær beita hinar líkamlegu ofbeldi. En ég var hlýðin – nema munnlega. Ég tók þær með orðum.“

 

Anna Ona

Forstöðukonan á Bjargi var hin norska Anna Ona-Hansen og bæði Sonja og aðrar konur sem dvöldu á Bjargi hafa lýst ofbeldi og harðræði af hennar hálfu. Sumar þeirra hafa sagt frá kynferðisofbeldi.

„Á hverju kvöldi þurftum við að fara úr nærbuxunum. Við þurftum að vera naktar undir náttfötunum. Svo stóðu þær þarna með rauða fötu, sem við þurftum að setja nærbuxurnar okkar ofan í. Af því að við myndum ekki strjúka án nærfatnaðar, héldu þær,“ rifjar Sonja upp.

„Einu sinni hleyptu þær strákum upp á herbergin okkar – strákum frá Hjálpræðishernum. Þeir áttu að frelsa okkur; fimmtán, sextán ára gamlir strákar. Heldurðu að þeir séu ekki með hormóna þótt þeir séu í Hjálpræðishernum? Þeir fengu ekki leyfi til að snerta mig, guði sé lof. “

Sonja segir frá því að stúlkurnar hafi alltaf verið látnar sauma í um það bil klukkutíma áður en þær fóru að sofa á hverju kvöldi. „Á meðan forstöðukonan las einhverja rómantíska kvasí-bók fyrir okkur. Svo eitt kvöld fórum við upp og vorum að flissa yfir sögunni. Við þvoðum okkur, burstuðum tennur, fórum úr nærbuxunum og settum í fötuna. Svo kom forstöðukonan upp og var búin að taka flétturnar úr hárinu. Hún opnaði dyrnar – það var dimmt inni í herberginu, en ljós á ganginum. Hún var í gulum nælonnáttkjól sem sást í gegnum. Hún kom inn, gekk til mín og ætlaði að kyssa mig á kinnina góða nótt. Svo rak hún tunguna upp í munninn á mér. Ég skrækti – og fékk mínus. Fyrsti kossinn minn var sem sagt frá forstöðukonunni Önnu Onu. Svo gerði hún þetta við hinar stelpurnar líka, flissaði síðan og hljóp út.“

„Svo rak hún tunguna upp í munninn á mér“

Sonja segist þó halda að hún hafi þurft að þola minna líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, vegna þess að litið hafi verið á hana sem gullgæsina; með sínar góðu einkunnir átti hún að fara áfram í menntaskóla og sýna hvers Bjarg var megnugt.

 

Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -