Hinn áttræði Ólafur Snævar Ögmundsson og hreyfihamlaður sonur hans, Auðunn Snævar Ólafsson, sem Alma leigufélag henti út á götuna á dögunum, hafa gist á hóteli síðustu daga. Ólafur segir þá bjartsýna, þrátt fyrir stöðuna.
Sjá einnig: Alma leigufélag lét bera áttræðan mann og hreyfihamlaðan son hans úr íbúð þeirra – Sjáðu myndböndin
Mannlíf heyrði í Ólafi sem sagði að þeir feðgar hefðu verið á hóteli síðustu daga og borgað 50.000 krónur fyrir nóttina. „Þannig að við getum ekki verið fleiri nætur sko. Við verðum að fara eitthvað annað á morgun,“ sagði hann og bætti við að sonur hans geti fengið að vera hjá systur Ólafs í nokkra daga. „Ætli ég verði ekki fyrir utan hjá henni í bílnum. Það er ekki um annað að ræða.“
Ólafur segir enga hjálp að fá frá hinu opinbera. „Nei, það er alveg dauður geiri. Nema kannski ef ég væri frá Króatíu eða einhvers staðar utan úr heimi, þá fengi ég kannski hjálp. Því miður er þetta svona.“
Aðspurður hvort það væri enga von að finna svaraði Ólafur: „Ég var nú að sækja um hjá Brynju en það tekur nú sinn tíma. En það er ekkert í deiglunni nema þetta.“ Varðandi málið í heild segir Ólafur að þetta hefði komið honum mjög á óvart. „Ég verð bara að segja eins og er að ég átti ekki von á þessu, þetta var eins og elding úr lausu lofti. Ég hafði borgað í marga mánuði, alltaf skilvíslega en það var eitthvað gamalt sem ég glopraði niður fyrst eftir Covid-veikindin, þegar ég kom frá Spáni. Ég lá inni á spítala á meðan það var verið að laga mig til.“
Mannlíf spurði Ólaf út í heilsuna í dag. „Hún er bara hjá karli sem er að verða áttræður. það fer eftir veðri og vindi sko, eftir því hvort hann sé hægra meginn eða vinstra megin.“ Varðandi andlega heilsu svaraði Ólafur: „Við feðgarnir erum það lánsamir að vera bjartsýnir menn og frá léttu fólki komnir. Þannig að við erum ekkert að leggjast í neina eymd. Alma kemst ekki með okkur þangað.“