Nóttin var nokkuð róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt samkvæmt dagbók hennar.
Ölvuðum aðila var ekið heim til sín eftir að hafa verið til vandræða í Smáíbúða-, Fossvogs- og Bústaðahverfi. Í því hverfi barst einnig tilkynning um innbrot í heimahúsi og er málið til rannsóknar hjá lögreglunni. Sótölvaður aðila á matsölustað í sama hverfi var ekið heim af lögreglunni. Í miðbæ Reykjavíkur var einstaklingur að áreita gesti á samkomustað en var honum vísað burt.
Lögreglan sem annast Austurbæ Reykjavíkur, mið- og Vesturbæ, sem og Seltjarnarnes, handtók tvo ökufanta vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Tveir til viðbótar voru hanteknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra reyndist sviptur ökuréttindum.
Í efra-Breiðholti barst tilkynning um innbrot í geymslu en málið er í rannsókn lögreglu. Þá voru tveir ökumenn í því hverfi handteknir vegna grun um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Þá handtók lögreglan sem þjónustar Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ, ökumann bifreiðar vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis.