Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Spáð í spilin fyrir EM í handbolta: „Styrkleikar liðsins eru óumdeilanlega sóknarleikur liðsins“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Evrópumót karla í handbolta hefst í Þýskalandi í kvöld. Mannlíf ræddi við Davíð Már Kristinsson handknattleiksþjálfara út í möguleika íslenska landsliðsins og fleira tengdu mótinu.

Mannlíf settist niður með handknattleiksþjálfaranum Davíð Má Kristinssyni og spurði hann út í EM karla í handbolta sem hefst í kvöld.

Byrjum á þessu týpíska, hvernig lýst þér á íslenska landsliðið fyrir EM? 

„Líkt og landinn allur er maður alltaf spenntur fyrir stórmóti hjá Íslandi. Enn eina ferðina glæðir stórmót í Handbolta lífi í leiðinlegasta og dimmasta mánuð ársins. Þessi viðburður sameinar þjóðina líkt og Eurovision og Skaupið enda sanna áhorfstölur það. Mér lýst nokkuð vel á liðið. Við eigum flott landslið. Ég reyni að vera bjartsýnn fyrir gengi liðsins en er að sama skapi raunsær.“

Hvernig lýst þér á nýja landsliðsþjálfarann og þjálfarateymið?

- Auglýsing -

„Ótrúlega vel. Snorri Steinn var búinn að gera frábæra hluti með Val í nokkur ár og lét liðið spila blússandi sóknarbolta. Hann átti því skilið að fá þetta starf. Það var kominn tími á breytingar í brúnni og Snorri er réttur maður á réttum stað og tíma. Aðstoðarmenn hans þeir Arnór Atlason og Óskar Bjarni Óskarsson eru líka frábærir þjálfarar og mynda gott tríó þarna með honum. Allir þessir þrír menn koma með ferskan andblæ inn í liðið og ná að sameina hópinn og höfða vel til manna. Mórallinn er algjörlega frábær í hópnum hef ég heyrt.“

Hverjir eru styrkleikar og veikleikar liðsins?

„Styrkleikar liðsins eru óumdeilanlega sóknarleikur liðsins. Liðið er með mikla og góða breidd. Í liðinu eru margir leikmenn sem geta opnað læstar dyr sóknarlega. Leikmenn með mikil gæði, slagkraft, leikskilning og útsjónarsemi. Liðið á að geta spilað hraðan og skemmtilegan bolta sem á að geta skemmt þjóðinni. Eins á styrkleiki Íslenska landsliðsins í handbolta alltaf að vera með meiri samheldni, meiri baráttu, meira þjóðarstolt og ættjarðarást en andstæðingurinn. Auk þess að vera ófyrirleitnir og heiðarlegir í allri sinni nálgun. Án allra þessara gilda verður róðurinn oft þungur hjá liðinu.

- Auglýsing -

Veikleikarnir eru hins vegar varnarleikurinn og markvarslan. Því miður gamalkunnugt stef það. Í þessum æfingaleikjum á móti Austurríki er liðið á köflum mjög gloppótt varnarlega og það verður því miður raunin á þessu móti held ég. Við ráðum til að mynda mjög oft illa við stóra og þunga línumenn og náum ekki að leysa það. Markvarslan á því miður að öllum líkindum eftir að verða mjög óstöðug.“

Hvað ertu spenntastur að sjá hjá Íslenska liðinu?

„Fyrst og fremst að sjá liðið undir stjórn nýs þjálfara sem er með öðruvísi áherslur en forveri hans. Hlakka til að sjá hvort liðið fari ekki eitthvað í 5-1 vörn sem gæti gefið fleiri hraðaupphlaup en hefur oft verið síðustu ár. Hlakka líka til að sjá hvernig Snorri dreifir og stýrir álaginu á liðinu með róteringum á mannskap. Held að það verði allir með sín hlutverk á hreinu og það verði allir ferskir. Eins hlakka ég líka til að sjá hvort Aron Pálmarsson spili ekki bara ca. 30-40 mínútur í leik. Reynslan hefur sýnt það að það er ekki hægt að keyra hann alveg út í fyrstu þremur leikjunum. Einnig vona ég að Kristján Örn Kristjánsson eða „Donni“ eins og hann er kallaður verði leikfær en hann er tæpur vegna meiðsla. Hann kemur með öðruvísi ógn hjá liðinu. Hann er lítið í horna- eða línuspili líkt og aðrar skyttur en er bara gamaldags langskytta. Liðið þarf að eiga hann upp í erminni til að fá langskot utan af velli.“

En hvaða leikmaður gæti komið mest á óvart hjá liðinu?

„Einar Þorsteinn Ólafsson. Ungur og efnilegur leikmaður sem er sífellt að bæta sig. Gríðarlega lofandi varnarmaður með nokkra góða eiginleika og algjörlega frábær að bera boltann upp völlinn og taka rétta ákvörðun í kjölfarið. Með mikla leikgreind eins og pabbi sinn Ólafur Stefánsson. 

Eins verður gaman að sjá Hauk Þrastarson. Langt síðan hann spilaði með landsliðinu vegna meiðsla. Spurning hvort hann gæti orðið óvæntur „Jóker“ þó að allir viti hvað hann geti þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur ennþá.“

Var einhver leikmaður eða leikmenn sem þú hefðir viljað sjá komast í lokahópinn?

„Það hefði verið gaman að sjá Þorstein Leó í UMFA komast í lokahóp. En það er auðvitað alltaf spurning á kostnað hvers. Við höfum ekki átt leikmann eins og hann síðan Héðinn Gilsson var upp á sitt besta. Yfir 2 metra skytta er afar sjaldgæft hér á Fróni. Hans tími kemur seinna. Það væri betra fyrir hann að taka sitt fyrsta stórmót á HM þar sem andstæðingarnir eru oft mun lakari og meira svigrúm fyrir mistök. Í millitíðinni getur hann haldið áfram að þróa sinn leik sóknarlega og bæta sig varnarlega.“

Hvar endar Íslenska liðið? 

„Liðið nær Ólympíusæti sem verður að teljast fínn árangur. Liðið mun toppa seinna.“

En hver verður markahæstur?

„Ómar Ingi Magnússon“

Hverjir vinna mótið? 

„Danmörk“

Er það eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

„Ég vil hvetja alla til að hlusta á hlaðvarpsþáttin Handkastið á meðan á móti stendur. Frábærir þættir hjá þeim félögum Arnari Daða Arnarssyni, Theódór Inga Pálmasyni og Styrmi Sigurðssyni. Þeir fara vel í saumana á íslenska liðinu og mótinu öllu. Það verður ekkert á mótinu sem fer framhjá þeim kumpánum og þeir munu kryfja allt til mergjar. Toppmenn.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -