Veitingastaðurinn Spaðinn hefur nú lokað eftir um tveggja ára starfsemi. Staðurinn bauð upp á pitsur og hafði framkvæmdastjóri staðarins hátt um það í viðtölum að ætla sér að setja pitsustaðinn Dominos á hausinn.
Þórarinn Ævarson, framkvæmdastjóri Spaðans, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að ekki hafi lengur verið rekstrargrundvöllur fyrir starfsemi Spaðans. Því hafi síðasti opnunardagur veitingastaðarins verið í gær, sunnudaginn 3. júlí. Vísir greinir frá lokuninni.
Þórarinn Ævarsson var framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi áður en hann opnaði Spaðann. Áður en hann tók við taumunum hjá IKEA stýrði hann hins vegar Dominos, pitsustaðnum sívinsæla. Þegar Þórarinn opnaði Spaðann fór hann mikinn í fjölmiðlum og sagðist meðal annars ætla sér að keyra Dominos í þrot á fimm árum. Hann baðst síðar afsökunar á ummælunum og sagði stór orð eiga það til að falla í hita leiksins. „Ástríða fyrir málefnum á það til að hleypa manni kapp í kinn, svo ekki sé kveðið fastar að,“ sagði Þórarinn.
Upp úr þessu fór af stað það sem kallað var pitsustríð á Íslandi, þar sem Spaðinn fór meðal annars að bjóða upp á þriðjudagstilboð sem Dominos reið á vaðið með á sínum tíma, en fleiri veitingastaðir höfðu tekið upp. Í verðkönnun Mannlífs síðastliðið haust kom í ljós að Spaðinn bauð betur en Dominos á þriðjudögum.
Í byrjun árs 2021 kom fram að fjárfestahópur sem Þórarinn fór fyrir var einn af þremur fjárfestahópum sem vildu kaupa rekstur Dominos á Íslandi. Að endingu var tilboð Birgis Þórs Bieltvedt samþykkt.
Spaðinn bauð upp á pitsur á lægra verði en almennt þekktist hér á landi, en Þórarinn hafði gagnrýnt álagningu Dominos, sem og annarra pitsustaða, og sagt viðskiptamódel þeirra bæði stuðla að matarsóun og óheilbrigðum lífsstíl, þar sem fólki væri yfirleitt beint í þá átt að kaupa meira en það þyrfti.
„Skuldir Spaðans eru nær einvörðungu við eigendur fyrirtækisins en þar sem rekstrargrundvöllur er brostinn er það mat eiganda að réttast sé að hætta starfsemi. Því var síðasti starfsdagur þess í gær, sunnudaginn 3. júlí,“ segir í tilkynningu Þórarins.
Spaðinn rak tvo veitingastaði, í Kópavogi og Hafnarfirði. Útibú Spaðans í Hafnarfirði lokaði þó í maí síðastliðnum.