Egill Helgason spáir í komandi alþingiskosningar í nýrri Facebook-færslu.
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason segir að ríkisstjórnin sé augljóslega „búin að lifa sjálfa sig“ og að kjósendur virðist ákveðnir í að refsa henni í næstu kosningum, eins og í tilfelli Íhaldsflokksins í Bretlandi. Segir hann að spurningin sé hvað muni taka við, hvort eitthvað muni breytast. Segir hann hrein valdaskipti sjaldgæfa á Íslandi og því fylgi yfirleitt einhver stjórnarflokkur áfram í næstu stjórn. Hér má lesa færsluna:
„Alþingi sett í dag. Það er ljóst að ríkisstjórnin er löngu búin að lifa sjálfa sig. Kjósendur virðast staðráðnir í að veita henni og stjórnarflokkunum ærlega ráðningu – svona líkt og var með Íhaldsflokkinn á Bretlandi. Bara spurning hvenær kosið verður til þings – ætlar stjórnin að lafa í tilvistarkreppu þangað til næsta haust? En hvaða flokkar eiga að taka við og eru þeir raunverulegir valkostir? Þ.e. fáum við valdaskipti sem breyta einhverju? Hrein valdaskipti eru mjög sjaldgæf í íslenskum stjórnmálum – alltaf situr einhver flokkur áfram milli ríkisstjórna. Eins og stendur er líklegast að við fáum samsteypustjórn ósamstæðra flokka sem eins og ævinlega ganga óbundnir til kosninga. Semsé – við kjósum en vitum ekki hvað við fáum.“