Íslenska kvennalandsliðið í handbolta hefur leik í dag á HM í handbolta en mótið fer fram í Noregi. Í fyrsta leik mætir liðið Slóveníu og fer leikurinn fram klukkan 17:00.
Mikil spenna er í hópnum fyrir heimsmeistaramótinu eins og gefur að skilja. „Þetta stórmót er að gefa mér svo mikið. Það er risastóru langtímamarkmiði náð hjá mér að hafa komist inn á stórmót. Ég er svo stolt af stelpunum. Ég bara get ekki beðið,“ sagði Hafdís Renötudóttir, markmaður Íslands, í samtali við RÚV um mótið.
„Kristín unnusta mín er mín stærsta klappstýra og mamma mín líka. Hún er dugleg að senda mér skilaboð fyrir hvern einasta leik. Hún prentar út fréttir og setur í ramma fyrir mig til að fá sjálfstraustið aðeins upp. Það er svo gaman að koma heim eftir leiki. Ég fæ alltaf mjög góðar útskýringar á öllu. Kristín segir mér alltaf hvað var rangt gert eða það sem var vel gert.“
Því miður fyrir landsliðið hefur umræðan snúist að miklu leyti um skandala innan HSÍ en sambandið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að gera styrktarsamninga við Rapyd og Arnarlax, sem eru tvö umdeildustu fyrirtæki Íslands um þessar mundir. Einn stjórnarmaður HSÍ hefur þegar sagt af sér vegna þess og hafa sumir kallað eftir því að formaður HSÍ og framkvæmdastjóri segi af sér. Þá hefur Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara, kallað málið hneyksli.