Föstudagur 3. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Spilaði fyrir 20 milljónir á tveimur árum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við getum ekki unað við það lengur að það sé verið að níðast á spilafíklum í fjáröflunarskyni,“ segir Alma Hafsteinsdóttir, ráðgjafi og fyrrverandi spilafíkill. Hún birti í vikunni sláandi bankayfirlit manns sem var djúpt sokkinn í spilafíkn og gagnrýnir eigendur spilakassa harðlega.

„Bankayfirlit sýna úttektir fyrir tæplega 20 milljónir á tveimur árum,“ segir Alma Hafsteinsdóttir, fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með sérhæfingu í spilafíkn. Hún birti á Facebook brot úr bankayfirliti spilafíkils, sem tók út rúmlega eina milljón króna á tveimur dögum.

Alma rekur stofu þar sem hún tekur á móti spilafíklum og fjölskyldum þeirra. Hún hefur sjálf glímt við spilafíkn en hefur undanfarin ár verið ötul baráttukona gegn spilakössum og þeim vanda sem þeim fylgir. Í haust voru stofnuð Samtök áhugafólks um spilafíkn. Alma segir að einstaklingurinn sem á reikningsyfirlitið sem hér er birt, eigi þrjú börn. Sá er að hennar sögn vel menntaður, með háskólagráðu og var í góðri vinnu. „Þú myndir ekki undir neinum kringumstæðum átta þig á því að viðkomandi glímdi við spilafíkn.“

Alma, sem er að sækja sér réttindi sem alþjóðlegur ráðgjafi fyrir spilafíkla, segir að einstaklingurinn sé á betri stað í dag. Spilafíknin hafi haft gífurleg áhrif á líf hans. Hann standi uppi eignalaus en fjölskyldan sé smám saman að koma til baka, eins og hún orðar það. „Þarna úti er fullt af svona sögum. Það eru fíkn sögur um skilnað, eignamissi, þrot og sjálfsvíg. Þessi saga er bara ein af þeim,“ útskýrir hún.

Alma Hafsteinsdóttir.

Spilakassar á Íslandi eru reknir af Íslandsspilum og Happdrætti Háskóla Íslands. Rauði krossinn er stærsti eigandi Íslandsspila með 64 prósenta eignarhlut. Slysavarnarfélagið Landsbjörg á 26,5 prósent og SÁÁ 9,5 prósent. Fram kemur á heimasíðu Íslandsspila að tilgangurinn með rekstrinum sé fjáröflun til að koma í veg fyrir útgjöld sem annars þyrftu að koma úr ríkissjóði.

Posakerfið misnotað

- Auglýsing -

Eins og sjá má á meðfylgjandi yfirliti voru flestar úttektirnar á veitingastaðnum Catalinu. Alma segir að posakerfið sé misnotað með þessum hætti og brýnt sé að setja hömlur á þessa úttektarleið. Gallinn sé að staðirnir sem hýsi spilakassanna fái hlutdeild af þeirri upphæð sem fari í þá. Árið 2018 hafi Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil greitt umboðsaðilum 845 milljónir króna í umboðslaun. Hún bendir á að engar reglur séu til um hámark úttekta í gegnum posa, öfugt við hraðbanka. Eigendur spilakassanna tali um að það sé rekstraraðilanna að setja sér reglur um hámarksúttektir en sjálf vill hún meina að ábyrgðin sé hjá eigendum spilakassanna. Þeir séu leyfishafarnir.

„Það er ekkert eftirlit með neinu sem snýr að þessum spilakössum. Það þarf enginn að segja mér að fólkið á þessum stöðum sjái ekki hvað er í gangi – og að það haldi að þarna sé heilbrigt fólk að leggja frjáls framlög til styrktar Háskóla Íslands, Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ,“ segir Alma. Hún segir það algenga möntru að spilafíklar séu ómenntað fólk án vinnu. „Þetta eru oft mjög tekjuháir einstaklingar, sem jafnvel vinna í tveimur til þremur aukastörfum til að fjármagna spilin,“ útskýrir hún. „Öll innkoman fer í spilakassanna.“

Þeir veikustu noti spilakassa

- Auglýsing -

Rannsóknir benda til að á bilinu sjö til tólf þúsund manns glími við alvarlega spilafíkn. Alma segir að af þeim stundi um tveir þriðju hlutar spilakassa. Það séu veikustu einstaklingarnir. Hún bendir á að spilafíkn sé viðurkenndur sjúkdómur en þrátt fyrir það séu engin úrræði í boði, nema helgarfyrirlestrar hjá SÁÁ. „Þetta er hryllilegur sjúkdómur. Prófaðu að fara á þessa staði, það vill enginn tala við þig. Það skammast sín allir fyrir að vera þarna. Þarna eru allir að spila fyrir grunnframfærsluna sína.“

Hún gagnrýnir harðlega að neyð spilafíkla skuli af eigendum Íslandsspila og Háskóla Íslands vera notuð með þessum hætti. „Við getum ekki unað við það lengur að það sé verið að níðast á spilafíklum í fjáröflunarskyni.“

Í hæsta áhættuflokki fyrir peningaþvætti

Ríkislögreglustjóri segir mikla áhættu á að spilakassar séu notaðir til að þvætta fé.

Veruleg hætta er á því að spilakassar geti verið notaðir til að þvætta fé, að því er fram kemur í áhættumati Embættis ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka, sem gefið var út í fyrra. Þar segir meðal annars að skortur á kröfu um gott orðspor þeirra staða sem hýsa spilakassa sé alvarlegur veikileiki vegna aðgengi þeirra til kaupa á vinningsmiðum. Spilakassarnir eru í hæsta áhættuflokki þegar kemur að peningaþvætti.

Í áhættumatinu segir að hægt sé að spila fyrir 100 þúsund krónur í senn, að hámarki, í spilakössunum, sem taki einungis reiðufé. „En slíkt er hægt að endurtaka eins oft og vilji stendur til. Hægt er að prenta út vinningsmiða án þess að spilað hafi verið eða fáir leikir hafi verið spilaðir.“

Fram kemur að hvorki Íslandsspil né Happdrætti Háskóla Íslands geri sérstaka kröfu um orðspor rekstraraðila. Dæmi séu um að samningum við rekstraraðila hafi verið rift vegna vanskila eða brota á reglum, til dæmis að ungmenni hafi fengið að spila í kössunum. Gagnrýnt er að engar reglur séu til staðar um útgreiðslu vinninga en algengast sé að vinningar séu greiddir út í reiðufé. Engin áreiðanleikakönnun fari fram á vinningshafa þegar spilastaður greiðir út vinning. Aðeins þurfi að gefa upp innlendan bankareikning og kennitölu þegar vinningur sé greiddur út rafrænt. „Ekki er neitt hámark varðandi þá vinninga sem spilastöðum er heimilt að greiða út en sé um mjög háa vinninga að ræða og spilastaður ekki með það mikla fjármuni þarf vinningshafi að leysa út vinninginn hjá rekstraraðila sem greiðir um 80-90% vinninga rafrænt.“

Alls voru árið 2019, 493 „happdrættisvélar“ í notkun á 28 stöðum. Þá séu spilastaðir „söfnunarkassa“ Íslandsspila 76 talsins og kassarnir þeirra séu 379. Samtals eru því 872 spilakassar í notkun. Heildarveltan var árið 2017 um 11,74 milljarðar króna og greiddir vinningar 8,1 milljarður.

Í niðurlagi áhættumatsins, þegar kemur að spilakössum, segir að veruleg hætta sé á því að spilakassar geti verið notaðir til að þvætta fé. Peningaþvætti í gegnum spilakassa þarfnist ekki sérfræðiþekkingar, sérstaks undirbúnings eða tilkostnaðar. „Tilkynningum til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu hefur fjölgað síðastliðin tvö ár og er grunur um að þessi leið hafi ítrekað verið notuð við þvætti. Samkvæmt framangreindu er hætta í tengslum við spilakassa mikil.“

Háskólinn segir að starfsemi HHÍ byggi á lögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

HHÍ skapi ekki eymd í samfélaginu

Nýstofnuð Samtök áhugafólks um fjárhættuspilavandann (SÁF) sendi fyrirspurn til Háskóla Íslands í desember, þar sem spurt var um þá starfsemi Happdrættis Háskóla Íslands sem snýr að spilakössum. Hér fyrir neðan eru birtar tvær af þeim spurningum SÁF og kaflar úr svörum háskólans.

SÁF: Telja stjórnendur Háskóla Íslands það samfélagslega ábyrgt að fjármagna starfsemi sína með rekstri spilakassa sem stuðla að spilafíkn og skapa eymd í samfélaginu?

HÍ: Þrátt fyrir að sú vá sem spilafíkn felur í sér sé óumdeild og að þátttaka í peningaleikjum í happdrættisvélum geti leitt til ánetjunar þá verður af hálfu Háskóla Íslands ekki tekið undir þær fullyrðingar að starfsemi happdrættisvéla HHÍ skapi eymd í samfélaginu. [Starfsemi stofnunarinnar byggist] á lögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Það er því á forræði Alþingis og stjórnvalda að ákveða hvort mæta skuli húsnæðisþörf háskólans með afrakstri af starfsemi HHÍ eða með öðru fé. Þegar litið er til frumkvæðis HHÍ á sviði ábyrgrar spilunar og aðgerða til að stemma stigu við spilafíkn […] verður að telja að gætt sé að þeirri samfélagslegu ábyrgð sem hvílir á stofnunum þegar kemur að því að starfrækja umrædda lögbundna starfsemi.

SÁF: Í viðtalinu [í Morgunblaðinu 27. nóvember sl.] upplýsir forstjóri HHÍ að félagið óski eftir leyfi til að hefja fjárhættuspilastarfsemi á Internetinu. Teljið þið sem stjórnendur Háskóla Íslands þessi ummæli réttlætanleg […] sérstaklega í ljósi þess skaða sem slík starfsemi HHÍ veldur í samfélaginu nú þegar?

HÍ: Tekið er undir þá afstöðu sem forstjóri HHÍ hefur lýst […] að með því að veita leyfishöfum reksturs happdrættisvéla og söfnunarkassa heimild til að starfrækja á Netinu sömu peningaleiki og þeir hafa leyfi til að bjóða upp á í happdrættisvélum sínum mætti veita landsmönnum lögmætan valkost við þá ólögmætu netspilun sem viðgengst hér á landi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -