Þingmaðurinn Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, skrifar pistil sem birtist í Morgunblaðinu í dag um þá aðgerðarpakka sem ríkisstjórnin hefur kynnt undanfarið vegna útbreiðslu COVID-19. „Nú verður ríkisstjórnin að gera svo vel að huga að almenningi í landinu,“ skrifar Inga í pistil sinn þar sem yfirskriftin er: „Hvenær kemur að fólkinu?“.
Hún segir kreppuna sem blasir við vegna kórónuveirufaraldurins stefna í að verða verri en afleiðingar efnahagshrunsins 2008.
Inga segir Flokk fólksins bíða eftir að ríkisstjórnin setji saman aðgerðapakka fyrir fólkið í landinu, ekki bara fyrirtækin. „Við viljum sjá að fjölskyldur, láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar séu viðurkenndir hópar í samfélaginu. Þetta fólk er að ganga í gegnum sömu erfiðleika og allir aðrir. Það er miklu fleira sem byggir samfélagið en einungis fyrirtæki, þó vitanlega vinni þetta allt saman.“
Inga segist gera sér grein fyrir að fyrirtækin séu mikilvægt tannhjól í gangverki samfélagsins en að það sé þó „ólíðandi“ að horfa upp á aukna kaupmáttarrýrnun hjá fátækasta fólkinu.
„Við verðum að bjarga heimilunum í greiðsluskjól meðan stormurinn gengur yfir og við erum að ná áttum og aðlaga okkur að nýjum veruleika. Ég vil sjá belti og axlabönd á fjölskyldurnar í landinu, “ skrifar Inga og spyr af hverju sé t.d. ekki minnst einu orði á verðtryggð húsnæðislán í aðgerðarpökkum ríkisstjórnarinnar. „Það er hvergi litið til þess að koma til móts við fólkið okkar sem er með verðtryggð fasteignalán.“
Inga rifjar upp afleiðingar efnahagshrunsins sem hófst 2008. „Fjöldi Íslendinga kaus með fótunum og yfirgaf landið og mörg þeirra hafa ekki snúið aftur. Fjölskyldur sundruðust. Ég vil ekki sjá að sú martröð endurtaki sig.“ Hún segir það vera skildu stjórnvalda að vernda eigin borgara.