Tveir ungir menn hafa verið ákærðir vegna alvarlegrar árásar sem átti sér stað fyrir utan skemmtistað við Ingólfstorg aðfaranótt 5. mars síðastliðins. RÚV greinir frá þessu.
Mennirnir tveir réðust á þriðja manninn og eru taldir hafa stungið hann margsinnis í líkamann, að öllum líkindum með skrúfjárni.
Annar mannanna, sá sem mundaði vopnið, er ákærður fyrir tilraun til manndráps en hinn fyrir líkamsárás, með því að kýla manninn ítrekað.
Hinir ákærðu eru 22 og 23 ára, en fórnarlambið er sömuleiðis ungur maður. Líkt og segir í ákærunni hlaut hann umtalsverða áverka vegna árásarinnar. Bæði lungu hans féllu saman og hann hlaut ótal sár og áverka á líkama og höfði.
Árásin náðist á myndband og fór í dreifingu um samfélagsmiðla dagana á eftir.
Ákæra á hendur mönnunum tveimur var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Sá sem ákærður er fyrir líkamsárás neitaði sök fyrir dómi. Hinn, sá sem beitti vopninu og er ákærður fyrir manndrápstilraun, tók ekki afstöðu til sakarefnis vegna forfalla verjanda síns. Hann mun þó gera það við fyrirtöku á fimmtudag.
Fórnarlambið krefur manninn sem ákærður er fyrir að hafa stungið hann um rúmar 4,1 milljón króna í bætur og hinn manninn um 900 þúsund krónur.